top of page

Nú hafa nokkrir ungir áhugamenn um tónlist tekið höndum saman og stofnað lítinn klúbb, sem eingöngu býður meðlimum sínum upp á kammermúsík.

– Morgunblaðið, 23. janúar 1957

Alþýðublaðið 1957.jpg

– Alþýðublaðið 29. janúar 1957

Í grein í Morgunblaðinu í desember árið 1927 leitast Jón Leifs við að skilgreina tónlist í „ólistræna“, sem væri „samleikur sem tíðkaðist á kaffihúsum, kvikmyndaleikhúsum, dansleikjum og fleiri líkum skemmtunum“,  og „listræna“ – tónlist sem væri „samleikur [og] byrjar með þeirri tegund samleiks sem erlendis nefnist „kammermusik“, þ.e. duo, trio, quartett o.s.frv. Af þeirri tegund eru strokfjórleikarnir [kvartettar] tíðastir og væri það mjög æskilegt að Íslendingar fengu færi á að kynnast slíkum leik á hæsta stigi“. Á þessum tíma áttu Íslendingar fáa hljóðfæraleikara sem gátu flutt kammertónlist „á hæsta stigi“ og áttu eftir að líða mörg ár þar til þeir yrðu fleiri.

 

Með stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík og Ríkisútvarpsins árið 1930 voru tekin stór skref í átt að því að ala upp bæði flytjendur og hlustendur klassískrar tónlistar. Í útvarpinu voru leikin hljómsveitarverk, einleiksverk, söngur og kammertónlist, en á almenna sviðinu voru það í fyrstu kennarar Tónlistarskólans í Reykjavík sem og erlendir tónlistarmenn sem stöldruðu við á leið sinni austur og vestur um haf sem komu fram á samheitinu Tónleikar Tónlistarfélagsins. Og við opnun Þjóðleikhússins árið 1950 jókst aðgangur almennings til muna að almennum tónleikum.

 

Má því segja, að við stofnun Kammermúsíkklúbbsins árið 1957 hafi verið orðinn til ákveðinn hlustendahópur sem naut þess að hlýða á opinberan tónlistarflutning, en ekki síður, nokkur hópur hljóðfæraleikara sem hafði öðlast færni í að leika kammertónlist sem krafðist mikils af hljóðfæraleikurunum.

Það voru eldhugarnir Guðmundur W. Vilhjálmsson lögfræðingur, Magnús Magnússon eðlisfræðingur, auk þeirra Ingólfs Ásmundssonar skrifstofustjóra, Hauks Gröndal sellóleikara og Ragnars Jónssonar í Smára sem tóku sig saman og ákváðu að kynna og miðla hinum afmarkaða tónlistarstíl sem kallast kammertónlist og stofna Kammermúsíkklúbbinn. Listrænir ráðgjafar voru þeir Árni Kristjánsson píanóleikari og Björn Ólafsson fiðluleikari, sem komu oft fram á tónleikum klúbbsins. Síðar meir gengu til liðs við stjórnarhópinn Runólfur Þórðarson verkfræðingur, Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur og Helgi Hafliðason arkitekt og enn síðar Halldór Hauksson sálfræðingur, Helga Hauksdóttir fiðluleikari og Valdemar Pálsson bókasafnsfræðingur.

 

Á blaðamannafundi í upphafi árs 1957 tilkynnti Ragnar Jónsson fyrir hönd hópsins að haldnir yrðu 6 tónleikar á árinu og að áhersla væri lögð á verk fyrir 3-5 flytjendur. Yrði sami háttur á og hjá Tónlistarfélaginu - menn gátu orðið meðlimir klúbbsins og greitt árgjald. Segja má að fall sé fararheill, en aflýsa varð fyrstu tónleikum félagsins því í lok janúar 1957 gekk slíkt ofsaveður yfir landið að öllum viðburðum í Reykjavík var aflýst. Stóra stundin rann svo upp þann 7. febrúar í Melaskólanum. Á efnisskránni voru Tríó í B-dúr op. 97 fyrir píanó, fiðlu og selló eftir Beethoven og Silungakvintettinn í A-dúr fyrir píanó, fiðlu, lágfiðlu, selló og kontrabassa eftir Schubert. Flytjendur voru Árni Kristjánsson á píanó, Björn Ólafsson á fiðlu, Jón Sen á lágfiðlu, Einar Vigfússon á selló og Ervin Köppen á kontrabassa.

 

Með vaxandi færni hljóðfæraleikara þyngdust verkefnin. Strengjakvartettar Beethovens voru efstir á óskalistanum og árið 1965 voru haldnir tónskáldatónleikar, Beethoventónleikar þar sem Erling Blöndal Bengtsson og Árni Kristjánsson fluttu ýmis kammerverk eftir tónskáldið. Þá voru haldnir Mozart-tónleikar þar sem heyrðust kvartettar og kvintettar eftir tónskáldið. Erling Blöndal flutti svo allar sellósvítur Bachs árið 1967, og endurtók leikinn að minnsta kosti tvisvar síðar. Nokkrum áratugum síðar flutti Bryndís Halla Gylfadóttir einnig allar sellósvítur Bachs fyrir klúbbinn.

 

Þegar skoðaðar eru efnisskrár klúbbsins allt frá fyrstu tónleikum má sjá hve fjölbreyttar þær eru. Heyra mátti tríó, kvartetta, kvintetta, sónötur, einleikssónötur, Brandenborgarkonserta og svítur svo eitthvað sé nefnt. Einnig má sjá nöfn leiðandi tónlistarmanna í íslensku tónlistarlífi um miðja öldina, en fyrir utan ofantalda tónlistarmenn má nefna Rögnvald Sigurjónsson, Ernst Normann, Egil Jónsson, Jórunni Viðar, Jósep Felzmann og Hanz Ploder. Þessum íslensku hljóðfæraleikurum átti eftir að fjölga til muna þegar komið var inn í sjöunda áratuginn.

 

Frá fyrstu árunum komu erlendir hljóðfærahópar reglulega fram á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins. Fyrstan skal nefna Komitas kvartettinn frá Armeníu, I Solisti Veneti frá Ítalíu og síðar kvartettar eins og Märkl strengjakvartettinn, Sinhoffer strengjakvartettinn og Arco strengjakvartettinn, en þessir þrír hópar fluttu alla strengjakvartetta Beethovens á árunum 1976 til 1978. Var það í annað sinn sem heildarflutningur á kvartettum Beethovens fór fram á Íslandi, en fyrsta skiptið var árið 1947 þegar Adolf Busch kvartettinn lék þá alla á Beethoven-hátíð Tónlistarfélagsins.

 

Þá hafa margir íslenskir samspilshópar komið fram á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins; Strokkvartett Guðnýjar Guðmundsdóttur, Blásarakvintett Reykjavíkur, Camerartica, Caput, Bernardel kvartettinn, Tríó Reykjavíkur, Eþos kvartettinn, Trio Nordica, og Strokkvartettinn Siggi svo nokkrir séu nefndir. Eins komu einstakir hljóðfæraleikarar fram sem hópur er höfðu æft einstök verk til flutnings. Eru hér aðeins örfáir nefndir til sögunnar. Má sjá í efnisskrám hinn mikla fjölbreytileika í hópi flytjenda og í þeim verkum sem flutt hafa verið.

 

Kammermúsíkklúbburinn hefur haldið tónleika sína víða. Fyrstu árin voru þeir haldnir í Melaskólanum, eða til ársins 1965. Þá um hríð í Kennaraskólanum og síðan á ýmsum stöðum til ársins 1974 er Bústaðakirkja, sem hafði nýlega verið vígð, varð helsti heimastaður klúbbsins í 38 ár. Í þá daga tíðkaðist ekki að klappa í kirkjum og gat verið þrúgandi fyrir tónleikagesti að mega ekki klappa að tónleikum loknum en þetta breyttist þegar fram liðu stundir. Eftir að Harpa var byggð ákvað stjórn klúbbsins að flytja starfsemina þangað og hafa tónleikar verið haldnir í Norðurljósum frá árinu 2012.

 

Þáttur hjónanna Gunnars Kvaran sellóleikara og Guðnýjar Guðmundsdóttur fyrrum konsertmeistara verður aldrei of oft tíundaður þegar kemur að kennslu hljóðfæraleikara og þjálfun í kammermúsík. Í janúar 1999 hélt klúbburinn nemendatónleika í samvinnu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Haft var eftir stjórnarmönnum klúbbsins í blaðagrein 31. desember 1998: „Á liðnum vetri komu nokkrir okkar úr stjórn Kammermúsíkklúbbsins á nemendatónleika Tónlistarskólans í Reykjavík. Þar fluttu fjórir hópar vandasöm kammertónverk af slíkri færni, að mikla undrun vakti. Skaut þá upp þeirri hugsun, að þetta þyrftu félagar klúbbsins einnig að fá að heyra.“ Á tónleikunum var fluttur Píanókvintett eftir Shostakovich og Strengjakvintett eftir Schubert, en áhugavert er að rifja upp að meðal flytjenda voru Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari sem tók svo við formennsku í stjórn klúbbsins vorið 2025, en þá ákvað fyrri stjórn að láta af störfum og lét klúbbinn í hendur næstu kynslóðar. Er það von þess sem hér ritar að gæfa fylgi starfsemi Kammermúsíkklúbbsins um ókomna tíð, eins og hún hefur þegar gert í næstum 70 ár.

 

– Bjarki Sveinbjörnsson, september 2025

TMI-Tonlistarsjodur-Merki-B-Svart.png
Harpa-Merki-Svart.png

Skrá á póstlista

RUV-ohf_text_Black.png

Smelltu á hlekkinn

eða sendu okkur póst

á info@kammer.is

  • Facebook
  • Instagram

2025 © CRESCENDO

bottom of page