
KMK69, NR. 3
18/01/2026
RANNVEIG MARTA SARC, FIÐLA
HERDÍS MJÖLL GUÐMUNDSDÓTTIR, FIÐLA
BRIAN HONG, VÍÓLA
GEIRÞRÚÐUR ANNA GUÐMUNDSDÓTTIR, SELLÓ
Kvartettferðalag:
Austurríki til Jamaíka
Efnisskrá
Josef Haydn (1732 - 1809)
Strengjakvartett í f-moll, op. 20 nr. 5
I. Allegro moderato
II. Minuetto
III. Adagio
IV. Finale: Fuga a due soggetti
Eleanor Alberga (1949)
Strengjakvartett nr. 2
HLÉ
Felix Mendelssohn Bartholdy (1809 - 1847)
Strengjakvartett í f-moll, op. 80 nr. 6
I. Allegro vivace assai
II. Allegro assai
II. Adagio
V. Finale: Allegro molto
Flytjendur
Rannveig Marta Sarc, fiðla
Herdís Mjöll Guðmundsdóttir, fiðla
Brian Hong, víóla
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, selló
FLYTJENDUR

Rannveig Marta Sarc
Rannveig Marta Sarc fæddist í Slóveníu og hefur komið fram víða í Ameríku, Asíu og Evrópu. Hún hefur verið einleikari meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Slóvensku filharmóníunni, Bacau „Mihail Jora” filharmóníunni á Ítalíu og Ungfóníunni. Á vettfangi kammertónlistar hefur hún komið fram meðal annars í Carnegie Hall og Alice Tully Hall og á tónlistarhátíðum eins og Ravinia Steans Music Institute, IMS Prussia Cove, Festival Mozaic, Thy Chamber Music Festival og NEXUS Chamber Music Chicago. Rannveig er meðlimur í Kammersveitinni Elju og New York Classical Players. Hún var á samning hjá The Saint Paul Chamber Orchestra árið 2024-2025 og hefur spilað reglulega með Chicago, Buffalo og Milwaukee sinfóníuhljómsveitunum. Rannveig hefur verið konsertmeistari í Civic Orchestra of Chicago, The Juilliard Orchestra, Peoria Symphony og leysti af sem 3. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2022.
Rannveig er ötull flytjandi samtímatónlistar. Sem meðlimur Dúó Freyju pantaði hún og frumflutti samtals tíu verk fyrir fiðlu og víólu eftir íslensk tónskáld sem gefin voru út á tveimur plötum undir nafninu Dúó Freyja.
Rannveig hefur hlotið ýmsar viðurkenningar eins og Luminarts Strings Fellowship 2022, fyrstu verðlaun í the Musicians Club of Women Scholarship Award 2021 og var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022.
Rannveig lauk bakkalár- og meistaragráðu frá The Juilliard School, þar sem hún var á Kovner styrk. Kennarar hennar voru Catherine Cho, Laurie Smukler og Donald Weilerstein, ásamt Robert Mealy á barokk fiðlu. Fyrrum kennarar hennar voru Vila Repše, Lilja Hjaltadóttir, Guðný Guðmundsdóttur á fiðlu og Þórunn Ósk Marinósdóttir á víólu. Rannveig spilar á íslenska fiðlu eftir Hans Jóhannsson.

Herdís Mjöll Guðmundsdóttir
Herdís Mjöll Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hóf störf við Minnesota Orchestra haustið 2025 í 2. Fiðlu. Áður var hún meðlimur og konsertmeistari í Civic Orchestra of Chicago og hefur reglulega leyst af í bæði Chicago Symphony Orchestra og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún gegndi hlutverki konsertmeistara Yale Philharmonia og var meðlimur Aspen Contemporary Ensemble sumrin 2023 og 2024.
Herdís hefur mikinn áhuga á flutningi samtímatónlistar og hefur frumflutt fjölda nýrra verka, bæði sem einleikari og í samstarfi við hópa á borð við Aspen Contemporary Ensemble, New Music New Haven, Oberlin Contemporary Ensemble, Elju kammerhljómsveitina og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 2024 frumflutti hún fiðlukonsert Missy Mazzoli, Dark with Excessive Bright, í Norður-Ameríku með Aspen Contemporary Ensemble. Árið 2020 frumflutti hún fiðlukonsert eftir Liam Kaplan ásamt stjórnandanum Tim Weiss og Oberlin Contemporary Ensemble. Meðan á námi hennar við Yale School of Music stóð naut hún þess að leika á barokkfiðlu og tók meðal annars þátt í verkefnum með Yale Schola Cantorum og Yale Voxtet.
Sem virkur kammertónlistarmaður kemur Herdís reglulega fram í heimaborg sinni, Reykjavík. Hún hefur haldið fjölda tónleika með eiginmanni sínum og samstarfsmanni, Liam Kaplan, og saman mynda þau nýstofnað píanótríó með sellóleikaranum Geirthrúði Önnu Guðmundsdóttur. Herdís hefur einnig komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa unnið til verðlauna í einleikarakeppni hljómsveitarinnar fyrir ungt tónlistarfólk. Hún hefur hlotið heiður þess að vera styrkþegi minningarsjóðs Jean-Pierre Jacquillat og eining minningarsjóðs Önnu Nordal og Ingjaldssjóðs á meðan nám stóð yfir. Herdís var einnig ein af styrkþegum American-Scandinavian Association í New York.
Herdís hóf fiðlunám fimm ára gömul hjá Lilju Hjaltadóttur við Allegro Suzuki-skólann í Reykjavík og lærði síðar hjá Guðnýju Guðmundsdóttur og einnig Sigrúnu Eðvaldsdóttur. Hún lauk prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2017 áður en hún hélt til Bandaríkjanna til að stunda grunnnám við Oberlin Conservatory undir leiðsögn Sibba Bernharðssonar. Herdís er útskrifuð með meistaragráðu frá Yale School of Music þar sem hún lærði í stúdíói Augustins Hadelich.

Brian Hong
Brian Hong var ráðinn lektor í víóluleik við University of Cincinnati College-Conservatory of Music í fyrra en á árunum 2023-2025 var hann meðlimur í hinum virta strengjakvartett Aizuri, sem hefur verið tilnefndur til GRAMMY-verðlauna. Brian hefur leikið einleik með hljómsveit Juilliard háskólans, New York Classical Players, hljómsveit bandaríska hersins og National Philharmonic. Hann hefur einnig komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum, svo sem Marlboro, Yellow Barn, Kneisel Hall, Music Academy of the West og Perlman Music Program.
Brian kennir einnig við Kneisel Hall á sumrin og hafa nemendur hans komist inn í fremstu sumarnámskeið og tónlistarháskóla í Bandaríkjunum. Hann lauk bakkalárgráðu frá New England Conservatory of Music og meistaragráðu frá Juilliard School. Kennarar hans og leiðbeinendur voru meðal annars Donald Weilerstein, Laurie Smukler, Catherine Cho og Kim Kashkashian.
Auk þess að spila og kenna hefur Brian aðkomu að ýmsum verkefnum. Hann er verkefnastjóri Vital Sounds Initiative hjá Project: Music Heals Us, sjálfseignarstofnun sem hefur að markmiði að flytja tónlist fyrir þá sem minna mega sín, til dæmis á spítölum og í fangelsum. Hann starfar einnig sem listrænn meðstjórnandi NEXUS Chamber Music.

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir hefur haslað sér völl sem einn af fremstu tónlistarmönnum Íslands og hefur hlotið mikið lof fyrir „afar músíkalskan flutning“, „endalaus blæbrigði“ og „dýpt og breidd“ í túlkun (Morgunblaðið). Hún hefur komið fram í mörgum af helstu tónleikasölum heims, þar á meðal Carnegie Hall í New York, Southbank Centre í Lundúnum, Fílharmóníunni í Varsjá og Banff Centre í Kanada. Hún hefur einnig leikið sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Unga Fólksins og Sinfóníuhljómsveit Konunglegu tónlistarakademíunnar í Lundúnum. Hún hefur svo starfað sem Unglistamaður hjá Tónlistarhátíð Unga Fólksins og Tónlistarakademíunni í Hörpu. Sumarið 2021 lék Geirþrúður allar sex einleikssellósvítur J.S. Bach í tónleikaferðalagi um Ísland. Lokatónleikarnir fóru fram í Norðurljósum í Hörpu og hlutu mikið lof gagnrýnanda, sem ritaði um flutning hennar, „túlkunin einkenndist af snerpu og skaphita, sannfærandi flæði og músíkölsku innsæi. Smæstu blæbrigði voru einstaklega fallega mótuð, en meginlínurnar skýrar... Þetta var mögnuð upplifun.“ (Fréttablaðið).
Geirþrúður lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2013. Þaðan lá leið hennar til Chicago þar sem hún stundaði bakkalárnám við Northwestern University. Hún tók meistaragráðu frá Juilliard-skólanum árið 2020 og lauk nýlega námi við Konunglegu tónlistarakademíuna í Lundúnum. Meðal helstu kennara hennar má nefna Gunnar Kvaran, Sigurgeir Agnarsson, Hans Jensen, Natasha Brofsky og Hannah Roberts. Geirþrúður hefur einnig mikinn áhuga á barokkflutningi og hljómsveitarstjórnun. Hún lærði á barokkselló hjá Phoebe Carrai og Tönyu Tompkins og hefur komið fram á Valley of the Moon Music Festival sem sérhæfir sig í flutningi á upprunahljóðfæri. Hún hefur tvisvar stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands sem einn af meðlimum hljómsveitarstjóraakademíu Sinfóníunnar.
