
KMK69, NR. 1
28/09/2025
ARI ÞÓR VILHJÁLMSSON, FIÐLA
SIGURGEIR AGNARSSON, SELLÓ
LIAM KAPLAN, PÍANÓ
Efnisskrá
Arvo Pärt (1935)
Mozart-Adagio
fyrir píanótríó
Spiegel im Spiegel
fyrir selló og píanó
Maurice Ravel (1875 - 1937)
Sónata nr. 2
fyrir fiðlu og píanó
I. Allegretto.
II. Blues. Moderato.
III. Perpetuum mobile. Allegro.
HLÉ
Píanótríó
I. Modéré
II. Pantoum (Assez vif)
III. Passacaille (Trés large)
IV. Final (Animé)
Flytjendur
Ari Þór Vilhjálmsson, fiðla
Sigurgeir Agnarsson, selló
Liam Kaplan, píanó
FLYTJENDUR

Ari Þór Vilhjálmsson
Ari Þór Vilhjálmsson er listrænn stjórnandi og formaður stjórnar Kammermúsíkklúbbsins. Ari brennur fyrir kammertónlist og hefur margsinnis komið fram í Kammermúsíkklúbbnum á undanförnum árum. Hann fæddist í Reykjavík árið 1981 og lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum þar sem helstu kennarar hans voru Almita og Roland Vamos, Rachel Barton Pine og Sigurbjörn Bernharðsson.
Ari starfaði hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á árunum 2006 til 2015 en flutti þá til Finnlands og tók við leiðarastöðu í Fílharmóníusveitinni í Helsinki. Ari hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík og Sibeliusarakademíuna. Hann er framkvæmdastjóri alþjóðlega tónlistarnámskeiðsins HIMA, sem hefur verið haldið árlega síðan 2013 á Íslandi. Ari er leiðari 2. fiðlu Fílharmóníusveitarinnar í Ísrael.
Ari hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum víða um Bandaríkin, í Finnlandi og á Íslandi. Í janúar síðastliðnum frumflutti hann fiðlukonsert eftir Þórð Magnússon með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur áður leikið fiðlukonserta m.a. eftir Mozart, Brahms og Shostakovich með hljómsveitinni. Í sumar sem leið, kom hann fram á kammerhátíðinni í Kuhmo í Finnlandi, einni stærstu kammertónlistarhátíðum Evrópu.

Sigurgeir Agnarsson
Sigurgeir Agnarsson (1976) var ráðinn leiðari sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2017 þar sem hann starfar enn. Hann hefur átt farsælan og fjölbreyttan feril sem flytjandi, kennari og skipuleggjandi margvíslegra tónlistarviðburða. Sigurgeir hefur margsinnis komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikið á ýmsum tónlistarhátíðum, bæði hérlendis og erlendis.
Árin 2013-2020 var Sigurgeir listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar, einnar rótgrónustu tónlistarhátíðar landsins. Hann hefur verið kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík (nú Menntaskóli í tónlist) síðan 2003 og hefur einnig kennt við Listaháskóla Íslands. Hann er og einn af stofnendum og stjórnarformaður HIMA - Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar. Hann er einnig í stjórn Kammermúsíkklúbbsins.
Sigurgeir gaf nýverið út fyrstu sólóplötu sína, NÁND þar sem hann leikur einleiksverk eftir frændurna Huga Guðmundsson og Hafliða Hallgrímsson.

Liam Kaplan
Píanóleikarinn og tónskáldið Liam Kaplan hóf störf við Sinfóníuhljómsveit Íslands 2024. Hann hefur komið fram á ýmsum tónleikaröðum á Íslandi, m.a. með Kammermúsikklúbbnum, í Tíbrá í Salnum, Kópavogi og tónleikaröðinni 15:15. Hann hefur komið fram sem einleikari með Oberlin Sinfonietta, Oberlin Orchestra, og Aspen Conducting Academy Orchestra. Liam var meðlimur Aspen Contemporary Ensemble árin 2022–23 og hefur hann frumflutt mörg ný verk með þeim.
Hann hefur gefið út tvær einleiksplötur sem innihalda seinni hluta Das Wohltemperierte Klavier og Goldberg-tilbrigðin eftir J.S. Bach. Seinni plata Liams inniheldur einnig átta prelúdíur eftir hann sjálfan og Orpheus Suite eftir Elizabeth Ogonek.
Herdís Mjöll Guðmundsdóttir frumflutti fiðlukonsert Liams með Tim Weiss og Oberlin Contemporary Ensemble árið 2020.
Liam lauk bakkalárgráðu við Oberlin Conservatory þar sem hann lærði píanóleik hjá Alvin Chow og tónsmíði hjá Stephen Hartke. Ásamt því að vera píanóleikari, vinnur Liam sem útsetjari og nótnasmiður fyrir fyrirtæki eins og Boosey & Hawkes og fyrir tónskáldin John Adams og Clarice Assad.
Um efnisskrá tónleikanna
Efnisskrá tónleikanna er helguð tveimur tónskáldum sem eiga það sammerkt að njóta almannahylli og hafa jafnframt skapað sér svo persónulegan og einstakan stíl að áheyrendur heyra nánast frá fyrsta takti hver þar er á ferð. Maurice Ravel og Arvo Pärt sóttu báðir í smiðju tónskálda fyrri alda til þess að skerpa stíl sinn og þeir eru annálaðir fyrir úthugsaða byggingu verka sinna. Þegar hugsað er til þeirrar svölu heiðríkju sem einkennir tónsmíðar beggja kemur ekki á óvart að báðir hafi þeir haft dálæti á verkum W. A. Mozarts.
Eistinn Arvo Pärt samdi Mozart-Adagio (1992) í minningu vinar síns, fiðluleikarans Olegs Kagan, sem var frábær Mozart-túlkandi. „Ég ákvað,“ sagði Pärt, „að senda honum hinstu kveðju með tónsmíð þar sem hans elskaði Mozart fengi að óma“. Verkið er byggt á 2. þætti úr píanósónötu Mozarts KV 280, og hljómar hann hér allur, en Pärt skiptir efninu milli þriggja hjóðfæra og bætir við það nótum frá eigin brjósti, eins konar fínlegum kommentum.
Spiegel im Spiegel (1978) tengist öðrum merkum fiðluleikara, Vladimir Spivakov, sem pantaði verkið og frumflutti en Pärt hefur síðan gert af því ýmsar útgáfur fyrir önnur hljóðfæri og heyrist það hér í umritun fyrir selló og píanó. Það er í tæru en ströngu formi þar sem einleikshljóðfærið leikur rísandi hendingar með jöfnum nótum sem eru speglaðar jafnharðan með hnígandi hendingum; hendingarnar lengjast um eina nótu í hvert sinn. Píanóið, sem Pärt talar gjarnan um að sé hér í hlutverki verndarengils, fylgir og styður með þríbrotnum hljómum.
Verkin tvö eftir Maurice Ravel, sem hljóma á þessum tónleikum, eru samin sitthvorumegin við fyrri heimsstyrjöldina. Ravel gegndi herþjónustu í franska hernum á árunum 1915–16 sem tók mjög á hann bæði andlega og líkamlega. Að stríðinu loknu var heimurinn breyttur og músíkin með. Nýklassík átti upp á pallborðið og djassinn var kominn til Parísar. Sónata fyrir fiðlu og píanó nr. 2 (1923–27) ber merki þessara nýju hræringa, ekki síst var milliþátturinn — Blues — djarft útspil á sínum tíma.
Ravel tókst að ljúka við píanótríóið í a-moll (1914) áður en hann gekk í herinn. Hann tileinkaði það André Gedalge sem hafði kennt honum kontrapunkt við Tónlistarháskólann í París en það var fag sem Ravel var alla tíð kært. Skólasystir hans, Nadia Boulanger, hafði eftir honum að það að æfa sig í kontrapunkti væri jafn nauðsynlegt og að þrífa heimilið. Kontrapunktur snýst um strangar reglur í raddfærslu og Ravel var snokinn fyrir þeirri áskorun sem felst í þröngum ramma. Það má meðal annars sjá í 2. þætti tríósins sem ber yfirskriftina Pantoum. Heitið vísar til ljóðforms þar sem tveimur ólíkum þemum er fléttað saman eftir ákveðnum bragreglum og rími. Þetta leikur Ravel eftir á músíkalska vísu og í 3. þætti fylgir hann svo forskrift passacagliunnar þar sem byggt er ofan á endurtekna bassalínu. Í upphafsþættinum sækir Ravel, sem var Baski í móðurætt, efnivið í baskneskan þjóðararf en lagar vitaskuld að sínum fágaða stíl sem einnig ræður ríkjum í léttum en kraftmiklum lokaþættinum.
Svanhildur Óskarsdóttir
