
Þessir tónleikar eru styrktir af:

Efnisskrá
Grigory Frid (1915 - 2012)
Sónata nr. 1 op. 62
fyrir víólu og píanó
I. Moderato - Allegro
II. Lento
III. Moderato
Úr Children’s Pieces
fyrir píanó
Song of Spring, op. 25, nr.3
Lily of the Valley, op. 25, nr. 5
Toccata, op. 41, nr. 14
R. Schumann (1810 - 1856)
Märchenbilder op. 113
I. Nicht schnell
II. Lebhaft
III. Rasch
IV. Langsam, mit melancholischem Ausdruck
HLÉ
Märchenerzählungen op. 132
fyrir klarinett, víólu og píanó
I. Lebhaft, nicht zu schnell
II. Lebhaft und sehr markiert
III. Ruhiges Tempo, mit zartem Ausdruck
IV. Lebhaft, sehr markiert
W. A. Mozart (1756 - 1791)
Kegelstatt-tríó K. 498
fyrir klarinett, víólu og píanó
I. Andante
II. Menuetto
III. Rondeuax: Allegretto
Flytjendur
Ásdís Valdimarsdóttir, víóla
Grímur Helgason, klarinett
Elisaveta Blumina, píanó
FLYTJENDUR

Ásdís Valdimarsdóttir
Ásdís Valdimarsdóttir fæddist í Reykjavík en hefur verið búsett í Amsterdam til margra ára. Hún kennir víóluleik og kammertónlist við deild Konunglega tónlistarháskólans í Haag og er sem stendur eini víóluleikarinn í Evrópu sem hefur leyfi til að kenna líkamskortlagningu (e. body mapping). Hún hóf ung nám við Juilliard-skólann í New York þar sem helstu kennarar hennar voru Paul Doktor, Felix Galimir og Juilliard-kvartettinn. Hún stundaði síðan framhaldsnám í Þýskalandi hjá Nobuko Imai. Ásdís var einn af stofnendum Miami-strengjakvartettsins sem hefur m.a. hlotið fyrstu verðlaun í Fischoff-keppninni. Hún sneri aftur til Evrópu og var leiðari víóludeildar Deutsche Kammerphilharmonie Bremen í nokkur ár áður en hún gekk til liðs við Chilingirian-strengjakvartettinn í London. Með honum ferðaðist hún um allan heim og lék inn á nokkrar hljómplötur. Þegar fjölskyldan stækkaði flutti hún til Hollands, þar sem hún nýtur þess að blanda saman kammertónlist, einleik og kennslu með einstaka heimsóknum til hljómsveita eins og The Scottish Chamber Orchestra, The Chamber Orchestra of Europe og Concertgebouw. Nýlega lék hún inn á nokkrar upptökur fyrir hollenska útgáfufyrirtækið Zefir Records, m.a. tvöfaldan geisladisk, The Voice of the Viola in times of oppression með píanóleikaranum Marcel Worms; heildarútgáfu strengjatríóa Beethovens í tilefni af 250 ára afmæli hans með Brunsvík-strengjatríóinu og geisla-diskinn Stolen Schubert, sem inniheldur hennar eigin útsetningar. Árið 2024 var útsetning hennar á Gömbu-fantasíum Telemanns fyrir víólu gefin út af franska útgefandanum Billaudot og upptaka fylgdi í kjölfarið fyrir spænska útgáfu-fyrirtækið HR Records. Ásdís hefur kennt við The Royal College og Trinity Laban í London og við Royal Northern College of Music í Manchester og komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim, þar á meðal Kuhmo Festival, Marlboro Music og Prussia Cove. Hún kennir á hverju sumri við Alþjóðlegu tónlistarakademíuna HIMA sem haldin er á Íslandi og á alþjóðlegum master-klössum í Cividale Del Friuli á Ítalíu.

Grímur Helgason
Grímur Helgason nam klarinettuleik hjá Sigurði I. Snorrasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Einari Jóhannessyni í Listaháshóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 2007. Hann hlaut við námslok brautargengi í keppninni Ungum einleikurum og hlaut einnig styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen. Á násmsárum sínum var hann einn stofnfélaga Kammersveitarinnar Ísafoldar. Grímur nam ennfremur við Conservatorium van Amsterdam hjá Hans Colbers og lauk þaðan M.Mus prófi vorið 2011.
Grímur hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem kammertónlistarmaður, hljómsveitarspilari og flytjandi nýrrar tónlistar. Hann er fastur meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands og meðal hljómsveita og tónlistarhópa sem hann hefur leikið með reglulega eru Caput, Stirni ensemble, Kúbus, Cauda, Kammersveit Reykjavíkur og Hljómsveit íslensku óperunnar auk samstarfs við fjölbreyttan hóp tónskálda og annarra hljóðfæraleikara.

Elisaveta Blumina
Elisaveta Blumina er píanóleikari, listrænn stjórnandi og hljómsveitarstjóri. Hún hefur unnið hin eftirsóttu Echo-tónlistarverðlaun en hafði áður hlotið viðurkenningu sem framúrskarandi fulltrúi sinnar kynslóðar píanóleikara. Hún hefur leikið inn á meira en fjörutíu plötur og fest sig í sessi sem frábær túlkandi. Nýjasti geisladiskur hennar hefur m.a. verið tilnefndur til Opus Klassik-verðlaunanna eftirsóttu. Elisaveta er einn mest spilaði píanóleikarinn á Spotify og fleiri streymisveitum.
Elisaveta er þekkt sem ástríðufullur talsmaður minna þekktra tónskálda, eftir að hafa meðal annars barist fyrir verkum Mieczysław Weinberg og Grigori Frid. Þáttaskil á ferli hennar urðu árið 2022 þegar henni var boðið að leiða upptökuverkefni sem hljómsveitarstjóri hjá Robert Schumann fílharmóníusveitinni í Chemnitz. Á námsárum sínum sótti Elisaveta hljómsveitarstjóranámskeið hjá Ilju Musin í Sankti Pétursborg og fékk síðar mikilvægan listrænan innblástur frá Vladimir Jurowski, Vag Papian, Vitali Akseneenok og Catherine Larsen-Maguire. Hún hefur stýrt nokkrum hljómsveitum frá píanóinu, þar á meðal Staatskapelle Halle, Robert Schumann fílharmóníunni, RTÉ Symphony Orchestra í Dublin og Elbphilharmonie.
Elisaveta Blumina leggur einnig mikla áherslu á að styðja og hlúa að ungu tónlistarfólki, og sinnir því hlutverki m.a. sem listrænn stjórnandi kammertónlistarhátíðarinnar í Hamborg.
Um efnisskrá tónleikanna
Hjartað í efnisskrá tónleikanna mynda tvö verk eftir Robert Schumann sem bæði vísa í titli sínum til ævintýra. Þau eru enda samin á þeim tíma, um miðja 19. öld, þegar áhugi á alls kyns þjóðsögum og ævintýrum var í hámarki, þökk sé uppgangi rómantísku stefnunnar með sinni áherslu á fantasíu og stundum óhugnað. Schumann var sjálfur mjög handgenginn bókmenntum sem sóttu í þennan brunn og aðdáandi ævintýra og draugasagna.
Mörg smærri tónverka Schumanns spruttu fram nánast á augabragði og með því að binda nokkur stutt verk saman í sveig gafst tónskáldinu gott færi á að sýna fjölhæfni sína og sköpunarkraft. Märchenbilder (Ævintýramyndir) urðu til á örfáum dögum í marsbyrjun árið 1851, fáeinum mánuðum eftir að Schumann-fjölskyldan hafði flust til Düsseldorf þar sem Robert tók við stöðu tónlistarstjóra borgarinnar. Honum farnaðist ekki alls kostar vel í því starfi og í nóvember 1853 steig hann í síðasta sinn á stjórnandapall borgarhljómsveitarinnar. Geðheilsu hans var farið að hraka — vorið eftir lagðist hann inn á sjúkrahús þaðan sem hann átti ekki afturkvæmt — en hann samdi samt nokkur verk þetta haust, meðal annars Märchenerzählungen (Ævintýrasagnir) sem líkt og Märchenbilder samanstendur af fjórum stuttum þáttum, en nú er klarínett komið til sögunnar auk víólu og píanós.
Kegelstatt-tríóið er skrifað fyrir sömu hljóðfæraskipan og líklegt að Wolfgang Amadeus Mozart hafi samið það til flutnings heima hjá Jacquin-fjölskyldunni í Vínarborg. Sonurinn á heimilinu, Gottfried von Jacquin var einn besti vinur Mozarts og dóttirin Franziska var píanónemandi hans. Mozart var þar tíður gestur og samdi á árunum 1783–88 allmörg verk til flutnings á vikulegum skemmtikvöldum fjölskyldunnar og náinna vina. Tríóið í Es-dúr K. 498, sem síðar fékk viðurnefnið „Kegelstatt“ (keiluvöllur), var samið sumarið 1786 og frumflutt af klarínettleikaranum Anton Stadler, Franzisku von Jacquin og Mozart sjálfum sem lék á víóluna.
Upphafsverk tónleikanna er sónata fyrir víólu og píanó eftir rússneska tónskáldið Grígoríj Fríd. Hann var gyðingur, kominn af menntafólki sem hafði flúið til Síberíu í kjölfar rússnesku byltingarinnar og þar ólst Fríd upp framan af. Fyrsti tónlistarkennari hans var móðir hans, sem var píanóleikari, en Fríd innritaðist síðar í tónlistarskóla í Moskvu og loks í tónlistarháskólann. Nám hans þar var rofið af síðari heimsstyrjöldinni; Fríd var kallaður í herinn en snéri aftur í konservatoríið að stríðinu loknu og lauk tónsmíðanámi hjá Víssaríon Shebalín sem var áhrifamikill kennari og góður vinur Dmítríjs Shostakovítsj. Verk Fríds voru allhefðbundin lengi vel en um 1970 umbylti hann tónsmíðastíl sínum og tók að semja mun framsæknari verk. Á þessu seinna skeiði samdi hann meðal annars tvær sónötur fyrir víólu og píanó. Það er sú fyrri þeirra sem hljómar hér, samin árið 1971.
Svanhildur Óskarsdóttir
