Camerarctica
-
kammerhópurinn var stofnaður árið 1992. Efnisskrá hópsins markast af hljóðfæraskipaninni, sem er flauta, klarinett, óbó, fagott, semball og strengjakvartett, og spannar verk frá klassíska tímanum allt til nútímans. Camerarctica hefur staðið að og tekið þátt í tónlistarhátíðum, m.a. í minningu tónskáldanna Hindemith og Fauré, og Schubert og Brahms, Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík og Norrænum músíkdögum og m.a. frumflutt allmörg verk eftir íslensk tónskáld. Camerarctica og Norræna húsið hafa staðið fyrir árlegri tónlistarhátíð, Norrænum sumartónum, þar sem flutt eru verk eftir íslensk og önnur norræn tónskáld í Norræna húsinu. Einnig hefur hópurinn komið fram á tónleikum Kammermúsikklúbbsins á hverju ári frá árinu 1997 og flutt m.a. við þau tækifæri 10 af strengjakvartettum Shostakovits. Á tónleikum hjá klúbbnum haustið 2010 hóf hópurinn kynningu á kvartettum Bartóks og sónötum Zelenkas. Camerarctica hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir flutning sinn á verkum W.A. Mozarts, en hópurinn hefur árlega frá 1993 haldið afar fjölsótta tónleika á aðventu undir yfirskriftinni „Mozart við kertaljós” og hefur hljóðritað tvo geisladiska með verkum hans.

Hildigunnur Halldórsdóttir (fiðla) lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík haustið 1987. Kennarar hennar voru Guný Guðmundsdóttir og Mark Reedman. Hún stundaði framhaldsnám við Eastman tónlistarskólann í Rochester í Bandaríkjunum og lauk þaðan Mastersgráðu 1992. Hildigunnur var ráðin í Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 1992 og starfar auk þess með kammerhópunum CAPUT, Camerartica og Contrasti.

Bryndís Pálsdóttir fiðluleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1984 og Bachelors- og Mastersnámi frá Juilliard-skólanum í New York árið 1988. Helstu kennarar hennar þar voru Dorothy Delay, Hyo Kang og Zinaida Gilels. Að því búnu stundaði hún einkanám í Amsterdam hjá Herman Krebbers. Bryndís hefur verið fastráðin í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá haustinu 1989 og fiðlukennari við Tónlistarskólann í Reykjavík frá sama tíma. Hún hefur spilað í allmörgum uppfærslum í Þjóðleikhúsinu, í hljómsveit Íslensku óperunnar og með ýmsum stærri og smærri kammerhópum. 

Svava Bernhardsdóttir (víóla) lauk fiðlukennaraprófi og burtfararprófi í víóluleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1982.  Þaðan lá leiðin til Hollands þar sem víóluleikarinn Nobuko Imai var aðalkennari hennar. Næstu fimm árin nam Svava við Juilliard tónlistarháskólann í New York undir leiðsögn William Lincer og Karen Tuttle. Lauk hún þaðan Bachelor of Music-gráðu 1985, Master of Music 1986 og Doctor of Musical Arts 1989. Svava vann víólukeppni skólans haustið 1986 og lék einleik með hljómsveit skólans verkið Der Schwanendreher eftir Paul Hindemith. Næstu árin var Svava við nám og störf í Basel í Sviss og sérhæfði sig í leik á upprunaleg hljóðfæri við Schola Cantorum Basiliensis.  Þar komu við sögu barokkfiðla og -víóla, miðaldafiðla, víóla d´amore og viola da gamba. Veturinn 1993 til 1994 var Svava uppfærslumaður víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Haustið 1994 tók Svava við samskonar stöðu við Slóvensku Fílharmóníuhljómsveitina í Ljubljana, Slóveníu. Hún lék Bartók víólukonsertinn með hljómsveitinni 1998. Í Ljubljana var Svava einnig leiðari víóludeildar kammersveitar Slóvensku fílharmóníunnar sem vann Preseren menningarverðlaunin 1998. Svava kenndi víóluleik við Tónlistarháskólann í Ljubljana svo og öðrum skólum og var með sumarnámskeið í Piran. Sumarið 2006 fluttist Svava aftur til Íslands og starfar nú í Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir í við ýmsa skóla. Svava hefur verið þátttakandi í Sumartónleikum í Skálholti síðan 1983 og spilar í Skálholtskvartettinum.
  
Sigurður Halldórsson nam sellóleik í Reykjavík hjá Gunnari Kvaran og í London við Guildhall School of Music and Drama hjá Raphael Sommer. Hann hefur komið fram sem einleikari á tónlistarhátíðum, í kvikmyndum og leikhúsverkum og einnig með hljómsveitum og hefur haldið marga einleikstónleika. Hann gaf nýlega út hljómdiskinn Eintal eða Monologue, þar sem hann leikur einleiksverk frá 20. öld, m.a. sónötu Kodálys op. 8.
Hann er eftirsóttur kammertónlistarmaður en auk þess að starfa með CAPUT þá leikur hann með kammerhópnum Camerarctica og syngur með sönghópnum Voces Thules sem sérhæfir sig í flutningi Íslenskrar miðaldatónlistar.

Sigurður hefur leikið með Daníel Þorsteinssyni píanóleikara í CAPUT síðan 1983. Þeir hafa leikið saman á tónleikum víðs vegar í Evrópu og Ameríku, auk Íslands, og flutt mörg helstu verk fyrir selló og píanó, nú nýlega allar sónötur Beethovens fyrir píanó og selló á Íslandi, í Færeyjum og Danmörku.

Sigurður leikur einnig á barrokselló og starfar á því sviði bæði sem einleikari og í samleik, m.a. með Bachsveitinni í Skálholti. Sumarið 2000 lék hann allar einleikssvítur Bachs á Sumartónleikum í Skálholtskirkju.
  

Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1988 og var kennari hennar þar Bernharður Wilkinson. Hún hélt námi áfram í Northern College of Music í Manchester, og lauk þaðan Postgraduate Diploma og síðar í Royal Academy of Music í Lundúnum en þar hlaut hún Diploma of Advanced Studies. Hallfríður lagði að lokum stund á franska tónlist hjá Alain Marion í París veturinn 1991-92. Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Honorary Associate of the Royal Academy of Music (HonARAM) sem veitist þeim fyrrum nemendum RAM sem notið hafa velgengni í starfi. Hallfríður hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveitinn; Flautukonsert eftir Carl Nielsen árið 1996 og Konsertinn, "Dansar með vindunum" eftir Einojuhani Rautavaara þar sem Hallfríður lék á flautu, pikkolóflautu, altflautu og bassaflautu árið 2003. Hallfríður Ólafsdóttir hefur verið fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1997.

Guðrún Óskarsdóttir (semball). Að loknu píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 nam Guðrún semballeik hjá Helgu Ingólfsdóttur. Framhaldsnám stundaði hún hjá Anneke Uittenbosch við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam, hjá Jesper Böje Christensen við Scola Cantorum í Basel og hjá Francoise Langéllé í París. Guðrún hefur leikið inn á nokkra hljómdiska og komið fram sem einleikari, meðleikari eða sem þáttakandi í kammertónlist á fjölmörgum tónleikum á íslandi og víða í Evrópu. Hún hefur leikið með Bach-sveitinni í Skálholti, Kammersveit Reykjavíkur og með Sinfónlíuhljómsveit Íslands. Guðrún hefur verið semballeikari CAPUT-hópsins frá 1992.