Trio nordica er stofnað árið 1993. Tríóið hefur leikið víðs vegar í Evrópu og Bandaríkjunum þar á meðal í Skandinavíu, Englandi, Frakklandi, Ítalíu og á Íslandi. Auk ýmissa meistaraverka stóru tónskáldanna hefur tríóið lagt metnað sinn í að flytja íslensk tónverk. Einnig hefur Trio Nordica lagt sérstaka áherslu á efnisskrá þar sem eingöngu eru flutt verk eftir konur. Á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins 26. nóvember hafa þær fengið til liðs við sig fiðluleikarann Pálínu Árnadóttur og lágfiðluleikarann Iben Bramsnes Teilmann frá Danmörku.
 
Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, er fædd árið 1965. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983 aðeins 17 ára gömul. Hún stundaði framhaldsnám við New England Conservatory í Boston og lauk Bachelor of Music gráðu með hæstu einkunn. Auður lauk Master of Music gráðu árið 1991 frá University of Minnesota. Auður hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn.  Árið 1985 fékk hún C.D. Jackson verðlaunin sem framúrskarandi strengjaleikari á hinni alþjóðlegu tónlistarhátíð í Tanglewood og 1988 fyrstu verðlaun í The Schubert Club Soloist Competition í Minneapolis. Árið 1991 var hún valin borgarlistamaður Reykjavíkurbogar til þriggja ára. Árið 1996 voru henni úthlutuð listamannalaun til þriggja ára frá menntamálaráðuneytinu. Auður hefur stundað kennslu í fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands undanfarin ár. Hún hefur komið víða fram sem einleikari og í kammermúsik á alþjóðlegum vettvangi, m.a í Bandaríkjunum, Kanada og víða á meginlandi Evrópu.  Hún tekur reglulega þátt í tónlistarhátíðum hérlendis og hefur margoft komið fram á erlendum tónlistarhátíðum. Einnig hefur hún farið í tónleikaferðir til Japan og Kína. Auður hefur leikið inn á fjölda geisladiska fyrir innlend og erlend útgáfufyrirtæki. Auður var bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2005.
 

Bryndís Halla Gylfadóttir selloleikari, lauk einleikaraprófi fra Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1984 undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Eftir það hélt hún til náms í Boston við New England Conservatory þar sem kennarar hennar voru Lawrence Lesser og Colin Carr. Hún lauk þar Mastersnámi árið 1989. Árið 1990 tók Bryndís Halla við leiðandi stöðu sellóleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir því starfi nú. Bryndís Halla hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár, jafnt sem einleikari og í kammertónlist. Hún hefur leikið inn á fjölda geisladiska. Auk þess að leika á tónleikum hér á landi spilar Bryndís reglulega á tónleikum bæði í Evrópu og Asíu.

Iben Bramsnes Teilmann er danskur lágfiðluleikari.

 Mona Sandström píanóleikari, er fædd árið 1966 í Svíþjóð. Hún kom fyrst fram  sem einleikari með Norrköping sinfóníuhljómsveitinni aðeins 12 ára gömul og hefur síðan leikið sem einleikari og kammermúsikant víða í Evrópu. Árið 1987 lauk hún einleikaraprófi með hæstu einkunn frá Sibelusarakademiunni í Helsinki. Hún hefur leikið með mörgum af helstu hljómsveitum í Svíþjóð og hefur ósjaldan leikið í útvarpi og sjónvarpi ásamt því að gera ýmsar upptökur. Mona starfar sem píanóleikari með kammerhljómsveitinni í Sundsvall en hún leikur jafnramt reglulega á tónleikum sem eineikari og kammermúsikant.

Pálína Árnadóttir fiðluleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1994 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Framhaldsnám stundaði hún við University of Houston hjá Fredell Lack og lauk þaðan M.M. prófi. Einnig stundaði hún nám við Royal College of Music í London hjá Grigory Zhislin, þar sem hún lauk Postgraduate Diploma. Árið 2002 lauk hún Graduate Diploma frá Juilliard tónlistarháskólanum í New York. Hún hefur tekið þátt í fjölda keppna og vann meðal annars til 3. verðlauna í Corpus Christi International fiðlukeppninni. Þá hefur hún komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveitum Mexíkóborgar og víðar.