Um efnisskrána:

 

Bedrich Smetana er einn af merkisberum rómantískrar, þjóðlegrar tónlistar á 19. öld og af þjóð sinni jafnan talinn faðir tékkneskrar tónlistar. Píanóverk, óperur og hljómsveitartónlist fylla mestan hluta verkaskrár hans og þar kveður jafnan við sterkan, þjóðlegan tón. Kammerverkin sem Smetana lauk við eru hins vegar fá: tveir strengja-kvartettar, tvö stykki fyrir fiðlu og píanó og píanótríóið í g-moll. Allt eru þetta verk sem oft eru flutt og hljóðrituð enda viðurkenndar öndvegis-tónsmíðar. Nokkur kammerverk Smetanas eru aðeins til í brotum eða uppkasti og önnur hafa glatast. Tríóið var samið á tímum mikilla erfiðleika í Smetana-fjölskyldunni. Smetana-hjónin höfðu verið gift í sex ár og eignast fjórar dætur, þrjár þeirra létust og sú elsta þeirra, 5 ára að aldri, í september 1855. Auk þessa átti tónskáldið við sálræna erfiðleika að stríða. Upp úr þessu umhverfi sorgar og mótlætis varð píanótríóið til og er ekki að undra að yfir þessu ægifallega verki hvíli söknuður og tregi. Það var frumflutt í desember 1855 og lék tónskáldið á píanóið við það tækifæri.

Johannes Brahms lauk við fyrsta píanótríó sitt í janúar árið 1854 nokkrum mánuðum eftir að hann hafði kynnst hjónunum Klöru og Robert Schumann og var það frumflutt í Danzig í nóvember 1855. Hann endurskoðaði síðan verkið mörgum árum seinna, gerði á því margar breytingar og stytti. Endurgerðin var frumflutt í janúar 1890 í Budapest og hefur hún stundum verið nefnd „fjórða“ píanótríó Brahms, svo afgerandi voru breytingarnar sem Brahms hafði gert á verkinu. Hann skrifaði til Klöru Schumann:  „Ég hef nú endursamið H-dúr tríóið mitt og gæti nú talið það op. 108 í stað op. 8. Það verður ekki eins leiðinlegt og áður - en verður það betra?“ Fyrsta kafla hafði hann stytt um næstum helming og þriðja kafla um þriðjung. Í upphafs- og lokakafla setti hann inn ný aukastef, í hæga kaflanum var hraður millikafli látinn víkja, sömu örlög fékk löng fúga í upphafskaflanum og í lokakaflanum sleppti hann tilvitnunum í sönglög eftir Beethoven og Schubert. 

Han skrifaði forleggjara sínum, Fritz Simrock: „Hvað varðar endursamda tríóið mitt, þá vil ég taka skýrt fram, að þótt satt sé að fyrri gerðin sé slæm, þá vil ég ekki halda því fram að sú seinni sé góð! Mér er í alvöru slétt sama hvað þú gerir við þá gömlu, brennir hana eða setur hana aftur í prentun“.

Simrock valdi seinni kostinn og prentaði báðar útgáfurnar.

Nú á dögum er það jafnan lokagerðin sem er flutt. Því hún er ansi góð.

 

Valdemar Pálsson