Um efnisskrána

 

Strengjakvartettarnir sex op. 18 eru frumraun Beethovens í þessu formi. Sá síðasti þeirra var saminn aldamótaárið 1800. Segja má að verkið endurspegli þau þáttaskil á ferli tónskáldsins sem urðu um þær mundir, en þá var „annað“ tónsmíðaskeið tónskáldsins að hefjast. Tímamótaverkið „Eroica“ var skammt undan og áhrifin frá Haydn og Mozart sem höfðu verið sterk í fyrstu strengjakvartettunum voru á undanhaldi. Jafnvel má segja að skilin verði milli 2. og 3. kafla verksins! Fyrsti kaflinn er fjörmikill í anda Haydns og hann einkennir góðlátlegt samtal hljóðfæranna. Annar kaflinn er hægur og angurvær og býr jafnvel yfir nokkurri dulúð. Þriðji kaflinn er dæmigert Beethoven-skerzó eins og menn heyra oft í seinni verkum tónskáldsins. Upphaf lokakaflans (La malinconia = þunglyndið) er afar sérkennilegt og líkt og í skerzóinu er þar svo sannarlega horft fram á veginn. Skyndilega breytist tónlistin svo í fjörugan sveitadans sem á eftir að vera meginuppistaða kaflans til loka hans. — VP

 

Atli Heimir útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík 1957 og að loknu stúdentsprófi ári síðar hélt hann til framhaldsnáms í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn í Þýskalandi. Árin 1959–1963 var hann í Köln — og þar var Strengjakvartett nr. 2 saminn 1960, en endurskoðaður í Reykjavík 2005. Næstu tvö ár sótti hann ýmis námskeið í samtímatónlist, m.a. hjá Stockhausen, og í raftónlist í Hollandi. Heimkominn 1965 gerðist Atli Heimir snemma áberandi á tónlistarsviðinu, sem kennari, framámaður í samtökum tónskálda, en þó einkum sem tónskáld og flytjandi, allt frá „uppákomum“ á vegum Musica Nova til vinsælla sönglaga; eftir hann liggja m.a. vcrk fyrir einsömul hljóðfæri, einleikskonsertar, sinfóníur, kammerverk, óperur, leikhústónlist og ballettar. Viðurkenningar hlaut Atli Heimir margar, m.a. tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrstur Íslendinga 1976, fyrir flautukonsert sinn, og  Heiðurslaun Alþingis frá 1992.

 

 Sofia Gubaidulina fæddist 1931 í bænum Tsjistopol (sovétlýðveldinu Tatar) á bökkum Volgu, hálfur Tatari og hálfur Rússi. Sem barn heillaðist Sofia af Bach, Mozart og Beethoven vegna þess hve andleg (spiritual) tónlist þeirra væri, og leitin eftir því andlega hefur fylgt henni æ síðan.  Hún telst nú til fremstu tónskálda Rússa á síðari hluta 20. aldar, heimsfræg, og meiri háttar hljómsveitir um veröld alla panta hjá henni verk og flytja þau. Á námsárum hennar í tónlistarháskóla Kazan var vestræn samtímatónlist að mestu bönnuð, Bartók var þó leyfður en aðal-skúrkurinn var Stravinsky. Þrátt fyrir bannið tókst unga fólkinu að ná því sem það vildi, þekkti t.d. Ives og Cage. Við tónlistarháskólann í Moskvu var tónlist hennar talin „ábyrgðarlaus“ og á villigötum, en Sjostakóvitsj bjargaði henni gegnum lokaprófin (1963) og hvatti hana til að halda áfram sömu braut. Listinn yfir verk Gubaidulinu er langur, flokkaður í hljómsveitarverk, einleikskonserta, einsöngs- og kórverk, verk fyrir einsömul hljóðfæri, kammerverk og tónlist við yfir 30 kvikmyndir. Píanókvintettinn sem nú er fluttur er elsta kammerverk hennar á listanum (1957), enda saminn meðan hún var við nám í Moskvu.

Sig. St.