Um efnisskrána

F-moll Píanókvintett Johannesar Brahms á sér sérkennilega sköpunarsögu eins
og fleiri verk tónskáldsins frá fyrri hluta ferils hans. Þegar hlustað er á verk hins
unga Brahms, eins og t.d. píanósónöturnar þrjár og fyrsta píanókonsertinn,
hvarflar víst að fáum að hér sé byrjandi á ferð. En tilfellið var, að Brahms var á
yngri árum fullur efasemda um eigið ágæti sem tónskáld. Hann samdi mikið, en
fargaði mörgu eða umritaði. Frægt er dæmið um Píanókonsertinn op. 15 sem átti
upphaflega að verða sinfónía en honum þótti efniviðurinn ekki þess verður að
notast í sinfóníu. Það var víst allt Beethoven að kenna, það voru að sögn þung
fótspor risans sem ollu þessari minnimáttarkennd. Árið 1862 lauk Brahms við
strengjakvintett með sömu hljóðfæraskipan og Strengjakvintett Schuberts. Þrátt
fyrir lofsamleg ummæli perluvinkonunnar Clöru Schumann var Brahms ekki viss
um ágæti verksins og leitaði til annars vinar, Josephs Joachim, sem sá á verkinu
ýmisa vankanta. Handritið fór því í kamínuna. Tveimur árum seinna leit dagsins
ljós ný útgáfa verksins, nú sónata fyrir tvö píanó, sem var gefin út sem op. 34b.
Enn leitaði Brahms til vina og varð það ekki til að auka sjálfsálitið.
Hljómsveitarstjórinn Hermann Levi lagði til að hann breytti sónötunni/strengja-
kvintettinum í píanókvintett, sem hann gerði og var þar þá kominn eins konar
„málamiðlun“. Tónleikagestir kvöldsins geta glaðst yfir því, því þeir fá að hlusta á
meistaraverk sem hlýtur að teljast til þess fremsta sem samið hefur verið í þessu
formi.                                                Valdemar Pálsson

 

Amy Beach (f. Cheney) ólst upp í bænum Chelsea, nærri Boston (BNA). Hún var undrabarn sem kallað er, kenndi sjálfri sér að lesa 3ja ára og samdi valsa fyrir píanó 4ra ára. Móðir hennar kenndi henni á píanó og sex ára fór hún að koma fram opinberlega með píanólög eftir Händel, Beethoven, Chopin og sjálfa sig.  Í famhaldinu fékk hún tilsögn hjá ýmsum þekktum píanistum, en í tónsmíðum var hún að mestu sjálfmenntuð.  Í stað skólagöngu las hún allt sem hún kom höndum yfir um kontrapunkt, hljómfræði og fúgur, og þýddi jafnvel úr frönsku rit eftir Gevaert og Berlioz um hljómsveitarútsetningu. Feril sinn sem konsertpíanisti hóf hún 16 ára en giftist tveimur árum síðar virtum lækni í Boston, 24 árum eldri en hún, Henry H. A. Beach. Þaðan í frá skyldi hún aðeins spila opinberlega einu sinni á ári og gefa út tónverk sín undir listamannsnafninu „Mrs. H.H.A. Beach“ sem hún hélt til dauðadags. Eftir dauða eiginmannsins 1910 lagði hún upp í konsertferðir, fyrst um Evrópu og síðan Ameríku þar sem hún flutti bæði eigin verk og annarra.

Amy Beach samdi yfir 300 tónverk, sönglög eru flest að tölu en meðal annarra verka eru sinfónía, píanókonsert, kórverk, kammermúsík, fiðlusónata og –rómansa, og ýmis píanóstykki. Á sínum tíma var Amy Beach vel þekkt og mikils metin og nú, á upplýstari tímum, tekur sól hennar að skína að nýju.                                      Sig.St