Camerarctica-kammerhópurinn var stofnaður árið 1992. Efnisskrá hópsins markast af hljóðfæraskipaninni, sem er flauta, klarinett, óbó, fagott, semball og strengjakvartett, og spannar verk frá klassíska tímanum allt til nútímans. Camerarctica hefur staðið að og tekið þátt í tónlistarhátíðum, m.a. í minningu tónskáldanna Hindemith og Fauré, og Schubert og Brahms, Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík og Norrænum músíkdögum og m.a. frumflutt allmörg verk eftir íslensk tónskáld. Camerarctica og Norræna húsið hafa staðið fyrir árlegri tónlistarhátíð, Norrænum sumartónum, þar sem flutt eru verk eftir íslensk og önnur norræn tónskáld í Norræna húsinu. Einnig hefur hópurinn komið fram á tónleikum Kammermúsikklúbbsins á hverju ári frá árinu 1997 og flutt m.a. við þau tækifæri 10 af strengjakvartettum Shostakovits. Á tónleikum hjá klúbbnum haustið 2010 hóf hópurinn kynningu á kvartettum Bartóks og sónötum Zelenkas. Camerarctica hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir flutning sinn á verkum W.A. Mozarts, en hópurinn hefur árlega frá 1993 haldið afar fjölsótta tónleika á aðventu undir yfirskriftinni „Mozart við kertaljós” og hefur hljóðritað tvo geisladiska með verkum hans.