Um efnisskrána

Traversing the Void: Hildigunnur Rúnarsdóttir segir svo frá: „Við Jo [Josephine Truman] kynntumst þegar ég var á tónlistarhátíð í Ástralíu að fylgja verki eftir mig. Við héldum sambandi og nokkrum árum síðar kviknaði hugmyndin um að vinna saman að tónverki. Verkið var unnið samhliða, hún henti í mig textum og ég sendi á hana hugmyndir að tónefni. … Textinn, sem Truman samdi, er ljóð um mannkynið sem er að eyðileggja heiminn eins og við þekkjum hann. Tónlistin endurspeglar textann, undirstrikar hann stundum en beinist stundum í gagnstæða átt.“ Hildigunnur fékk styrk frá Tónskáldasjóði RÚV og Josephine Truman frá The Australia Council of the Arts við samningu verksins.

 Josephine Truman er söngkona, tónsmiður, skáld og myndlistarmaður sem starfar í Sydney í Ástralíu. Frá ungum aldri lærði hún á píanó (með áhuga á spuna) og söng (með áherslu á „microtonality“) og skrifaði síðar meistararitgerðina EXTREME THROATS: Extended Vocal Techniques in Contemporary Music of the 20th and 21st Centuries. Truman hefur hlotið margar viðurkenningar, stundað nám, tónsköpun og flutning—einkum jazz og nýtónlist—í London, Amsterdam, Stuttgart og víðar auk heimalandsins, og unnið með mörgu frægðarfólki, m.a. John Cage við flutning Song Books. [australianmusiccentre.com.au/artist/truman-josephine]

Hildigunnur Rúnarsdóttir nam tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík, í Hamborg og Kaupmannahöfn. Hún hefur starfað mikið með ýmsum kórum, þ.á.m. sönghópnum Hljómeyki. Helstu verk eru m.a. barnaóperan Gilitrutt, Blandaðir dansar fyrir hljómsveit, Fiðlukonsert, Konsert fyrir orgel, strengi og slagverk, Messa í minningu Guðbrands Þorlákssonar, fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit (tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2003) og Messa fyrir Jón Vídalín, fyrir kór, einsöngvara og kammersveit.  Einnig liggur eftir hana fjöldi kórverka og sönglaga. Hún starfar nú við tónsmíðar, kennslu og söng í Reykjavík.

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz 1991, nam hjá Rut L. Magnússon við Tónlistarskólann og útskrifaðist frá Guildhall School of Music and Drama í London 2001. Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis. Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk. Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.

Camerarctica-kammerhópurinn var stofnaður árið 1992. Efnisskrá hópsins spannar verk frá klassíska tímanum allt til nútímans. Camerarctica hefur staðið að og tekið þátt í tónlistarhátíðum, m.a. í minningu tónskáldanna Hindemith og Fauré, og Schubert og Brahms, Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík og Norrænum músíkdögum og m.a. frumflutt allmörg verk eftir íslensk tónskáld. Camerarctica og Norræna húsið hafa staðið fyrir árlegri tónlistarhátíð, Norrænum sumartónum, þar sem flutt eru verk eftir íslensk og önnur norræn tónskáld í Norræna húsinu. Einnig hefur hópurinn komið fram á tónleikum Kammermúsikklúbbsins á hverju ári frá árinu 1997 og flutt m.a. við þau tækifæri 10 af strengjakvartettum Shostakovits. Á tónleikum hjá klúbbnum haustið 2010 hóf hópurinn kynningu á kvartettum Bartóks og sónötum Zelenkas. Camerarctica hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir flutning sinn á verkum W.A. Mozarts, en hópurinn hefur árlega frá 1993 haldið afar fjölsótta tónleika á aðventu undir yfirskriftinni „Mozart við kertaljós” og hefur hljóðritað tvo geisladiska með verkum hans.              Sig. St.