Strokkvartettinn Siggi var stofnaður árið 2012, skipaður fiðluleikurunum Unu Sveinbjarnardóttur og Helgu Þóru Björgvinsdóttur, Þórunni Ósk Marinósdóttur víóluleikara og Sigurði Bjarka Gunnarssyni sellóleikara. Áður en til kvartettsins var stofnað höfðu félagar hans lengi unnið saman á vettvangi tónlistarinnar, starfað meðal annars öll sem hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands og eru meðlimir í Kammersveit Reykjavíkur.
Strokkvartettinn Siggi hefur getið sér gott orð jafnt hjá almennum áheyrendum sem gagnrýnendum – þykir jafnvígur á „nútímamúsík“ sem rómantík og klassík. Það sýndi hann á tvennum fyrri tónleikum sínum hjá Kammermúsíkklúbbnum: í nóvember 2017 flutti hann kvartetta eftir Glass, Shostakovits og Beethoven, og í febrúar 2019 eftir Mozart, Anton Webern, Stravinsky og Beethoven.