Um efnisskrána

Um þessar mundir eru 250 ár síðan Beethoven fæddist. Hann var um tvítugt þegar franska byltingin brast á 1789 og Evrópa varð aldrei aftur söm. Beethoven hafði ungur kynnst Das wohltemperierte Klavier Bachs, sótt tíma hjá Haydn (og Salieri), og hann dáði Mozart umfram önnur tónskáld — en tónlist Haydns og Mozarts var samin fyrir öðru vísi fólk, háttvísa og virðulega (en ekki alltaf músíkalska) yfirstétt. Tónlist Beethovens var ólík tónlist eldri kynslóða, í og með vegna þess að hún tilheyrði hinni nýju Evrópu, en auðvitað sérstaklega vegna þess hvernig Beethoven sjálfur var af guði gerður, djúpviturt og tilfinningaríkt „móralskt sjení“ eins og einhver sagði. Og hann hafði á valdi sínu þá tækni sem þurfti til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar í tónum: músíkin brennur og bölsótast, hlær og grætur svo ákaft að áheyrendum blöskraði stundum og þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð – þegar Eroica var frumflutt varð að styðja hinn tilfinninganæma Goethe tárfellandi út eftir þrjá fyrstu taktana!

Fyrstu sex kvartettar Beethovens op. 18 voru samdir 1798-1800 og gefnir út 1801. Fyrir óinnvígða teljast þeir vera heppilegur inngangur að kvartettum Beethovens, ekki síst hinn fjórði í c-moll því hann þykir þeirra ástríðufyllstur, skemmtilegastur og að sumra mati bestur. Þessi kvartett var fyrst fluttur í Klúbbnum í apríl 1963 – áður hafði op. 18.2 verið fluttur í nóvember 1957, báðir af kvartett Tónlistarskólans sem skipuðu þeir Björn Ólafsson, Josef Felzmann, Jón Sen og Einar Vigfússon.

Veronique Vaka (f. 1986) er kanadískt tónskáld og sellóleikari sem starfar á Íslandi. Tónsmíðanámi lauk hún við Listaháskóla Íslands og hefur samið verk fyrir ýmsar hljómsveitir og hópa hérlendis og erlendis, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Caput, Strokkvartettinn Sigga, auk þess að taka virkan þátt í tónlistarhátíðum eins og Myrkum músíkdögum og Sumartónleikum í Skálholti. Þá samdi hún fiðlukonsert fyrir Unu Sveinbjarnardóttur og er með sellókonsert í smíðum fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur. Tónlist Veronique Vaka er sögð vera „organísk“ (lífræn?), þar sem sérstakur gaumur er gefinn þáttum eins og hljómfalli, hljómblæ og áferð.

Oliver Kentish skrifar: Strengjakvartettinn „MANTRA“ er stutt verk í einum kafla og tekur tæplega níu mínútur í flutningi. Verkið er í raun æfing í sjálfsstjórn þar sem mjög takmarkað viðfangsefni er notað; í verkinu koma einungis fyrir átta nótur. Uppröðun þeirra er oftast þannig: B, E, D, C, G, F, A, Es og oftast nær er fyrstu fjórum nótunum svarað af þeim seinni. Verkið, þótt stutt og samþjappað sé, og þrátt fyrir að vera spilað sem ein heild, má greinilega skipta niður í samsvarandi kafla sem finnast í hefðbundnum klassískum strengjakvartett: eftir dramatískt forspil er hraður kafli, svo einhverskonar skertsó, hægur kafli og loks stutt passacaglia (þrástef). Þótt ég sé oftast hikandi við að gefa titla fyrir það sem er í grundvallaratriðum óhlutbundin tónlist, þá geri ég það aðallega þegar ég skrifa fyrir strengjakvartett. Í þessu tilfelli, sennilega vegna stöðugrar endurtekningar á átta-nótna stefinu, hef ég gefið verkinu undirtitilinn Mantra.

Ellefti strengjakvartett Beethovens op. 95 er einna stystur og þéttofnastur 16 kvartetta hans, síðasti kvartett svonefnds miðtímabils þriggja skeiða tónskáldsins (1802–1812). Í bréfi til bresks kunningja síns, tónlistar-áhrifamannsins George Smart, skrifaði hann: „kvartettinn op. 95 var saminn fyrir lítinn hóp kunnáttumanna og aldrei á að flytja hann opinberlega.“ Nútíma fræðimenn segja að árið 1810 hljóti þessi tónlist að hafa hljómað afar framandlega í eyrum áheyrenda: kvartettinn hafi af hálfu Beethovens verið tilraun í tónsmíðatækni sem hann átti eftir að nýta sér í síðari verkum. Þrátt fyrir þetta var kvartettinn frumfluttur 1814 og gefinn út á prenti tveim árum síðar.

Sig. St.