Flytjendur

Páll Palomares stundaði fiðlunám hjá foreldrum sínum Unni Pálsdóttur og Joaquín Palomares og síðar við Tónlistarskólann í Kópavogi og við Listaháskóla Íslands hjá Auði Hafsteinsdóttur. Hann stundaði framhaldsnám við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín og Konunglega danska tónlistarháskólann. Páll hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveitinni í Alicante á Spáni, Aarhus symfoniorkester og fleiri hljómsveitum. Hann er leðari í 2. fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess að stunda kammerhljóðfæraleik af kappi.

Ólöf Sigursveinsdóttir útskrifaðist sem sellóleikari frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart þar sem hún stundaði einnig nám í hljómsveitarstjórn. Ólöf stjórnaði á námsárunum í Þýskalandi bæði kórum og hljómsveit. Seinna bættist við dagskrárgerðarnám og starfaði hún um tíma við útvarp bæði í Þýskalandi og hér heima. Á Íslandi setti Ólöf krafta sína í uppbyggingu Strengjasveitar Tónskóla Sigursveins, því aðalstarf hennar er að kenna og leika á selló. Ólöf átti þátt í stofnun ReykjavíkBarokk árið 2012 og hún stjórnar hljómsveit sem kallar sig Íslenska strengi. Ólöf er einnig framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Berjadaga, tónlistarhátíðar sem er haldin ár hvert í Ólafsfirði á berjatíma.

Bjarni Frímann Bjarnason er einn fjölhæfasti tónlistarmaður þjóðarinnar. Hann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur og lauk prófi í víóluleik frá Listaháskóla Íslands. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín. Bjarni hefur komið fram víða um lönd, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari og stjórnandi. Hann hefur samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Bjarni Frímann tók við stöðu tónlistarstjóra Íslensku óperunnar í janúar 2018 og síðar sama ár var hann ráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.