Um efnisskrána:

 

Louise Farrenc naut á sinni tíð mikils álits og hylli í Frakklandi og víðar sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og fræðikona – hún var prófessor í píanóleik við tónlistarháskóla Parísar í 30 ár. En nafn hennar sem tónskálds hvarf með henni í gröfina, sennilega vegna kynferðis hennar en einnig vegna þess að óperur voru vinsælasta tónlist Frakka á 19. öld, og Farrenc samdi enga óperu, en tónlist af nánast öllu öðru tagi. Kunnáttumenn, m.a. Robert Schumann, töldu hana þó hvergi standa að baki karlkyns kollegum sínum, ekki síst í píanó- og kammerverkum. Áður hafa píanókvintettar hennar tveir, op. 30 og 31, hljómað í Kammermúsíkklúbbnum, en meðal annarra kammerverka eru klarinettutríóið og þrjú píanótríó, auk nónettsins fyrir strengjakvartett og blásarakvintett op. 38 sem skaut henni upp á frægðarhimininn 1842.

 

Á stuttri ævi samdi Schubert um 1000 tónverk, þar af um 600 ljóðasöngva. Af þeim er Der Hirt auf dem Felsen (Hjarðsveinninn á klettinum) hinn síðasti, saminn mánuði áður en Schubert var allur. Hjarðsveinninn varð líka svanasöngur klarinettuleikarans Egils Jónssonar (1921-71) hjá Kammermúsíkklúbbnum, á tónleikum í júní 1967 ásamt Eygló Viktorsdóttur og Guðrúnu Kristinsdóttur, en Egill hafði verið tíður flytjandi hjá klúbbnum fyrstu árin. Nú hljómar Hjarðsveinninn í þriðja sinn í klúbbnum, áður á 200. fæðingarári Schuberts 1997 í flutningi Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Sigurðar Snorrasonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Textinn er settur saman úr tveimur ljóðum eftir Wilhelm Müller og Helmina von Chézy: Hjarðsveinn syngur um ástina og vorið, sem í vændum er.

                                                                        Sig. St.

 

Klarínettutríó Johannesar Brahms (1833-1897) er eitt fjögurra einleiksverka tónskáldsins fyrir klarínettu, en þau eru klarínettukvintettinn og klarínettutríóið (1891) og klarínettu-/víólusónöturnar tvær (1894). Þessi verk eru öll máluð í haustlitunum, ef svo má að orði komast, enda á einleikshljóðfærið auðvelt með að tjá slík litbrigði. Verkin voru öll tileinkuð klarínettuleikaranum Richard Mühlfeld og samin undir lok ferils tónskáldsins. Tríóið var frumflutt af Brahms við píanóið, fyrrnefndum Mühlfeld á klarínettu og Robert Haussmann á selló í desember 1891. Þrátt fyrir að ýmislegt bendi til þess að Brahms hafi þótt mest til tríósins koma af þessum verkum sínum fyrir klarínettu þá heyrist það sjaldnar en hin verkin. Hljómaveröld þesss er ljóðræn og rómantísk en heildaryfirbragðið frekar dökkt og innhverft. Menn hafa leitt að því líkum að upphafsstef verksins hafi átt að vera aðalstef fyrsta kafla fimmtu sinfóníu Brahms sem aldrei leit dagsins ljós. Annar kaflinn er hægur og íhugull og sá þriðji hæglátt scherzo með tríókafla í Ländler-stíl. Lokakaflinn er knappur og hnitmiðaður endapunktur á glæsilegu verki.

                                                Valdemar Pálsson, mars 2007