Um efnisskrána:

Þorkell Sigurbjörnsson (píanó), Gunnar Egilson (klarinetta) og Ingvar Jónasson (víóla) fluttu á tónleikum í Kammermúsíkklúbbnum verk hins fyrstnefnda Intrada og Kisum í maí 1971, og sama ár komu þau út á hljómplötunni Kisum/Intrada. Nú eru allir þrír góðvinir og máttarstólpar Klúbbsins fallnir frá en verkin lifa í túlkun nýrra flytjenda. Eins og nú var Kegelstatt-tríó Mozarts rúsínan í pylsuendanum á tónleikunum 1971.

 

Robert Schumann hafði gaman af litríkum og ævintýralegum sögum eins og sjá má í tveimur verkum þess efnis á tónleikunum, Märchenbilder (ævintýramyndir) op. 113 fyrir víólu og píanó, og tríóinu Märchenerzählungen (ævintýrasögur) op. 132. Ekki er vitað til hvaða mynda eða sagna er vísað, fremur en í Myndum á sýningu eftir Mussorgsky. Märchenerzählungen eru meðal síðustu tónverka Schumanns, samið á 2–3 dögum í október 1853. Að sögn Clöru Schumann var Robert hæstánægður með verkið sem hún frumflutti sjálf á heimatónleikum ásamt víólu- og klarinettuleikara. Märchenbilder hljómuðu í Kammermúsíkklúbbnum í mars 1988 en Märchenerzählungen hafa ekki heyrst í Klúbbnum fyrr en nú. Þó er tríóið annað af aðeins tveimur verkum nafnkunnra tónskálda sem á 125 árum fylgdu eftir hljóðfæraskipan Mozarts í Kegelstatt-tríóinu, hitt er Acht Stücke op. 83 eftir Max Bruch (1910).

 

György Kurtág (f. 1926), ungverskt tónskáld og píanóleikari, segir Bartók og Beethoven vera hlekkinn sem tengir sig við Robert Schumann: „Móðurmál mitt er Bartók og móðurmál Bartóks var Beethoven.“ Tríóið samanstendur úr 5 stuttum þáttum sem allir eiga að vísa til Schumanns með einhverjum hætti, sá síðasti og lengsti (6 mín.) nefnist „Abschied“ (kveðja).

 

Clara Schumann var á 61 árs löngum ferli einn áhrifaríkasti og virtasti konsertpíanisti sinnar tíðar, frumflutti m.a. mörg verk Roberts, eiginmanns síns, og Jóhannesar Brahms. Eftir dauða Roberts (1856) sneri hún sér meira að kammermúsík og fór m.a. í tónleikaferðir með fiðlaranum fræga, Joseph Joachim. Sem tónskáld stóð hún í skugganum af eiginmanninum, sem hún eignaðist með átta börn. Meðal tónsmíða hennar eru einleiksverk fyrir píanó, píanókonsert, kammermúsík og kórverk.

 

Mozart tileinkaði Es-dúr tríóið K.498 sautján ára píanónemanda sínum, Franzisku von Jaquin, og tríóið var frumflutt á heimili fjölskyldu hennar í ágúst 1786. Franziska spilaði á píanóið, Anton Stadler á klarinettu og Mozart sjálfur á víólu. Stadler hefur verið frábær klarinettuleikari. Mozart heillaðist af leik hans og fögrum tóni – af öllum hljóðfærum þótti honum tónn klarinettunnar líkastur mannsröddinni – og öll klarinettuverk hans voru samin fyrir Stadler, tríóið K.498, kvintettinn K.581, aríurnar tvær í óperunni La clemenza di Tito K.621 og konsertinn K.622. Segja má að saman hafi þeir Mozart og Stadler rutt klarinettunni til rúms í kammer- og hljómsveitartónlist, þannig að þegar á dögum Beethovens átti hún orðið fastan sess í sinfónískri tónlist. Sú hefð að tengja Es-dúr tríóið við „Kegelstatt“ (keiluleikur, keilubraut) er frá síðari nótna-útgefanda komin en ekki frá Mozart sjálfum. Sú kenning er til að Mozart hafi samið tríóið við billiard-borð líkt og sýnt er í kvikmyndinni Amadeus, en önnur að í upphafsstefinu megi heyra í fyrsta takti rúllandi kúlu sem sundrar keilum og fellir þær, stef sem gengur í gegnum allan fyrsta kaflann. Hvað um það. Vafalítið hristi Mozart þetta þokkafulla víólu- og klarinettutríó fram úr erminni til að spila sjálfur með vinum sínum Anton og Franzisku, því víólan var honum kærust kammerhljóðfæra. Kegelstatt-tríóið hljómar nú í níunda sinn í Kammermúsíkklúbbnum, fyrst í apríl 1964 flutt af Þorkatli Sigurbjörnssyni, Gunnari Egilson og Einari G. Sveinbjörnssyni.

Sig. St.