Um efnisskrána:

F-moll Píanókvintett Johannesar Brahms á sér sérkennilega sköpunarsögu eins
og fleiri verk tónskáldsins frá fyrri hluta ferils hans. Þegar hlustað er á verk hins
unga Brahms, eins og t.d. píanósónöturnar þrjár og fyrsta píanókonsertinn,
hvarflar víst að fáum að hér sé byrjandi á ferð. En tilfellið var, að Brahms var á
yngri árum fullur efasemda um eigið ágæti sem tónskáld. Hann samdi mikið, en
fargaði mörgu eða umritaði. Frægt er dæmið um Píanókonsertinn op. 15 sem átti
upphaflega að verða sinfónía en honum þótti efniviðurinn ekki þess verður að
notast í sinfóníu. Það var víst allt Beethoven að kenna, það voru að sögn þung
fótspor risans sem ollu þessari minnimáttarkennd. Árið 1862 lauk Brahms við
strengjakvintett með sömu hljóðfæraskipan og Strengjakvintett Schuberts. Þrátt
fyrir lofsamleg ummæli perluvinkonunnar Clöru Schumann var Brahms ekki viss
um ágæti verksins og leitaði til annars vinar, Josephs Joachim, sem sá á verkinu
ýmisa vankanta. Handritið fór því í kamínuna. Tveimur árum seinna leit dagsins
ljós ný útgáfa verksins, nú sónata fyrir tvö píanó, sem var gefin út sem op. 34b.
Enn leitaði Brahms til vina og varð það ekki til að auka sjálfsálitið.
Hljómsveitarstjórinn Hermann Levi lagði til að hann breytti sónötunni/strengja-
kvintettinum í píanókvintett, sem hann gerði og var þar þá kominn eins konar
„málamiðlun“. Tónleikagestir kvöldsins geta glaðst yfir því, því þeir fá að hlusta á
meistaraverk sem hlýtur að teljast til þess fremsta sem samið hefur verið í þessu
formi.

Nú eru liðin 12 ár frá því að hinn tilkomumikli Píanókvintett Sergeis Taneyev var
fluttur í fyrsta sinn á Íslandi á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins og vakti þá
hrifningu tónleikagesta. Taneyev, löngu gleymdur lykilmaður í rússneskri
tónlistarsögu, nam píanóleik við Tónlistarháskólann í Moskvu og var nemandi
Tchaikovskys í tónsmíðum og frumflutti píanóröddina í fyrsta píanókonserti hins
síðarnefnda í Moskvu árið 1875. Hann varð prófessor og seinna stjórnandi
Tónlistarháskólans. Hann naut á sínum tíma virðingar sem tónsmíðakennari og
tónskáld í heimalandi sínu og meðal nemenda hans voru ekki minni menn en
Rachmaninov, Scriabin og Prokofiev. Taneyev þótti áreiðanlegur og vandur að
virðingu sinni. Til þess er m.a.s. tekið að hann hafi verið alger bindindismaður á
tóbak og áfengi. Sem er að sjálfsögðu gott og virðist ekki hafa skemmt fyrir
tónlistinni. Hann var afkastamikið tónskáld og ekki hvað síst á sviði
kammertónlistar, samdi m.a. tólf strengjakvartetta. Taneyev var nokkur einfari
meðal rússneskra tónskálda og fylgdi ekki þeirri þjóðernisstefnu sem ríkjandi var
á tímum hans í Rússlandi. Píanókvintettinn op. 30, sem var saminn 1910-11, er
mikill að vöxtum, hann tekur um þrjá stundarfjórðunga í flutningi og er í fjórum
köflum.

Valdemar Pálsson