Flytjendur

Hallveig Rúnarsdóttir hefur komið víða við á fjölbreyttum ferli sínum. Meðal stærstu óperuhlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni, Fiordiligi í Così fan tutte og Michaëla í Carmen. Hún hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis. Hallveig hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, þar af nokkur sem hafa verið samin fyrir hana. Hún hefur einnig haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og víðar um Evrópu þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng. Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins 2013 og hefur tvívegis hlotið tilnefningu eftir það til sömu verðlauna. Hún hefur einnig verið tilnefnd tvisvar sem söngvari ársins á Grímuverðlaununum.

 

Guðný Guðmundsdóttir hefur verið meðal fremstu hljóðfæraleikara Íslands um áratugaskeið. Hún gegndi starfi 1. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1974-2010 og hefur komið fram sem einleikari, í kammertónlist og sem gestakennari víða í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Guðný hefur leikið á hátt í fjörutíu tónleikum á vegum Kammermúsíkklúbbsins frá árinu 1966.

 

Ragnar Jónsson sellóleikari er einn af efnilegustu hljóðfæraleikurum landsins. Hann hefur stundað nám við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og Ecole Normale Superieur de Musique í París og hélt útskriftartónleika sína frá Listaháskóla Íslands í maí sl. Árið 2016 lék hann sellókonsert Elgars með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum ungra einleikara.

 

Richard Simm píanóleikari fæddist í Newcastle á Englandi og vakti þar athygli sextán ára gamall með leik sínum á píanókonsert nr. 1 eftir Liszt. Richard hefur komið fram á fjölda tónleika víða um lönd og hefur verið afar atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi frá því að hann settist hér að árið 1989.