Um efnisskrána

 

Wolfgang Amadeus Mozart. Í tilefni af heimsókn Maximilians erkihertoga af Austurríki til Salzburg í apríl 1775 var hinn 19 ára Mozart beðinn að semja óperu, sem hann kláraði á sex vikum. Óperan „Il re pastore“ (Smalakóngurinn – K. 208) segir frá ástum og örlögum smalastúlkunnar Elísu og smalans Aminta (soprano castrato) eftir að Alexander mikli hafði krýnt smalann kóng í Sídon. Aríuna „L’amerò, sarò cosante“ syngur Aminta um Elísu í síðari þætti óperunnar:  Ég elska hana, ævinlega trúr / sem eiginmaður og ástmögur, / aðeins hana mun ég þrá og elska. / Í gæsku hennar og ást / finn ég yndi mitt, / finn ég fögnuð og frið.

 

Ralph Vaughan Williams nefndi átta-laga söngvasveig sinn eftir upphafslínum eins kvæðisins, „Along the field as we came by“. Kvæðin átta eru úr 63ja-kvæða safni enska skáldsins A.E. Housman (1859-1936), „A Shropshire Lad“ (1896). Við flestöll kvæðanna hafa mörg tónskáld samið lag, við sum kvæðanna fleiri en tíu. Þótt Vaughan Williams sé ekki þekktastur fyrir sönglög sín – hann samdi óperur, balletta, kammermúsík, kórverk, konserta og níu sinfóníur – liggja eftir hann lög við meira en 80 kvæði, enda er haft eftir honum að mannsröddin sé elst og fremst allra hljóðfæra.

 

Sveinbjörn Sveinbjörnsson færðist sem tónskáld, að mati Jóns Þórarinssonar, mest í fang í kammerverkum sínum, sónötu fyrir fiðlu og píanó, og tveimur píanótríóum, í e- og a-moll. Fyrrnefnda tríóið flutti Sveinbjörn sjálfur ásamt Þórarni Guðmundssyni og Þórhalli Árnasyni í Nýja bíói 6. febrúar 1923, auk verka eftir Brahms og Beethoven, og er ekki annað vitað en þetta hafi verið „fyrstu sannnefndu kammertónleikar sem hér hafa verið haldnir“ segir í samtímaheimild. Sama tríó flutti Guðný Guðmundsdóttir með Halldóri Haraldssyni og Gunnari Kvaran í Kammermúsíkklúbbnum í mars 1992, og nú hljómar a-moll tríóið í klúbbnum í fyrsta sinn. Í seinni tíð hefur Kammersveit Reykjavíkur flutt báða kvartettana, þann í e-moll árið 2004 og í a-moll 2006..

 

Snorri Sigfús Birgisson, tónskáld og píanóleikari, lærði sín fræði í Reykjavík, Rochester (N.Y.), Osló og Amsterdam. Síðan 1980 hefur hann starfaði í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Snorri er félagi í CAPUT hópnum en hefur aðeins komið fram einu sinni hjá Kammermúsíkklúbbnum, á 200. ártíð Mozarts í nóvember 1991.

 

Ludwig van Beethoven var að sönnu jöfur hljóðfæratónlistar, frá píanósónötum og strengjakvartettum til voldugra sinfónia, og kammerverk hans hafa hljómað oftar á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins en nokkurs annars tónskálds. En Beethoven samdi líka sönglög alla ævi – aríur, dúetta, ljóðasöngva og söngsveiga – og útsetti önnur. Meðal síðastnefndu eru 25 útsetningar á skoskum þjóðlögum op. 108. Ekkert sönglaga hans hefur heyrst í Kammermúsíkklúbbnum fyrr en nú, enda söngur fremur fátíður á tónleikum klúbbsins.

Sig. St.