Kammermúsíkklúbburinn á fimmtugasta ári.
 
Þegar boðað var til fyrstu tónleika nýstofnaðs Kammermúsíkklúbbs í upphafi árs 1957, gerði slíkt ofsaveður að allar samkomur féllu niður í Reykjavík. Hinn 7. febrúar höfðu veðurguðirnir tekið starfsemina í sátt og höfðust ekki frekar að. Að kvöldi þess dags hlustuðu á annað hundrað tónleikagestir í Melaskólanum á Tríó Tónlistarskólans, þá Árna Kristjánsson [píanóleikara], Björn Ólafsson [fiðluleikara] og Einar Vigfússon [sellóleikara], leika tríó í B-dúr, opus 97, eftir Beethoven, Erkihertogatríóið. Síðan bættust Jón Sen og Erwin Köppen í hópinn og var þá fluttur kvintett í A-dúr, opus 114, eftir Schubert, Silungskvintettinn. Þetta kvöld óraði fáa fyrir því að starfseminni yrði haldið áfram óslitið næstu hálfa öldina en þá sem oftar var fall fararheill
 
Stofnendur Kammermúsíkklúbbsins voru Haukur Gröndal, Ingólfur Ásmundsson, Magnús Magnússon, Ragnar Jónsson og Guðmundur W. Vilhjálmsson, auk Árna Kristjánssonar og Björns Ólafssonar sem jafnframt voru tónlistarráðunautar. Án Árna og Björns hefði Kammermúsíkklúbburinn ekki orðið að veruleika.
 
Þegar Kammermúsíkklúbburinn var stofnaður, var kammertónlist sjaldan flutt á Íslandi. Tónlistarfélagið í Reykjavík bauð fyrst og fremst upp á tónleika með frægum einleikurum. Komu þar fram margir af bestu tónlistarmönnum heimsins. Þó ber þess að minnast að kvartett Adolfs Busch flutti alla strengjakvartetta Beethovens árið 1947 á vegum Tónlistarfélagsins. Kveikti það  víða neista sem lengi lifði.
 
Með stofnun Kammermúsíkklúbbsins hófst markviss flutningur kammertónlistar hér á landi, þ.e. tónverka sem samin eru fyrir þrjú eða fleiri jafngild hljóðfæri. Á þeim tæplega fimmtíu árum sem liðin eru frá febrúarkvöldinu 1957  hefur Kammermúsíkklúbburinn staðið fyrir 224 tónleikum. Í fjölmörgum tilvikum var um frumflutning tónverka á Íslandi að ræða. Nokkrum sinnum fór starfsemin út fyrir sitt svið í þrengstu merkingu, m.a. þegar fimm af sex Brandenborgarkonsertum Bachs voru fluttir undir stjórn Björns Ólafssonar árin 1966 og 1971.
Erling Blöndal Bengtsson [sellóleikari] hefur oft sótt klúbbinn heim og hefur leikið þar allar . einleikssvítur Bachs í sex skipti auk þess sem hann hefur flutt öll verk Beethovens fyrir selló og píanó ásamt Árna Kristjánssyni. Erling sem er einn besti sellóleikari heimsins í dag mun heimsækja okkur á afmælisárinu ásamt tengdadóttir sinni, Ninu Kavtaratze, sem er þekktur píanisti. Hafa stundir félaga Kammermúsíklúbbsins með Erlingi við flutning hans á einleikssvítum Bachs verið dýrmætar.
Úr hópi stjórnenda starfseminnar hurfu stofnfélagar smátt og smátt á vit feðra sinna eða annir í starfi hindruðu frekari þátttöku og árið 1968 komu til liðs við Kammermúsíkklúbbinn Einar B. Pálsson prófessor, Þórarinn Guðnason læknir og dr. Jakob Benediktsson og voru í forsvari ásamt Guðmundi W. Vilhjálmssyni í nokkur ár.
 
Kammermúsíkklúbburinn hefur unnið markvisst að kynningu strengjakvartetta merkustu tónskálda sögunnar. Á 25 ára afmæli klúbbsins heimsóttu okkur þrír þýskir kvartettar og fluttu alla strengjakvartetta Beethovens. Einn þeirra, Sinnhoffer-kvartettinn ( nú Cuvilliés kvartettinn ), hefur oft heimsótt okkur síðan og auk strengjakvartetta hefur hann í tvígang flutt okkur Die Kunst der Fuge eftir Bach í raddsetningu fyrir strengjakvartett og orgel, fyrst ásamt Ragnari Björnssyni en síðar ásamt Orthulf Prunner. Telja verður strengjakvartetta kjarna kammertónlistar og sökum þess hve íslenskir kvartettar áttu erfitt uppdráttar, voru þessar heimsóknir okkur mikilvægar. Cuvilliés strengjakvartettinn mun heimsækja okkur á komandi afmælisári
 
Á afmælistónleikunum 1997 urðu þau stórtíðindi að Bernardel-kvartettinn flutti einn af hinum síðustu miklu strengjakvartettum Beethovens að ósk Kammermúsíkklúbbsins. Beethoven sagði sjálfur að komandi kynslóðir myndu kunna að meta þessa kvartetta. Það var því vissulega tímabært að þeir yrðu fluttir af íslenskum tónlistarmönnum. Með því urðu Íslendingar sjálfstæð tónlistarþjóð! Síðan eru engin kammertónverk íslenskum tónlistarmönnum ofviða.
 
Kammermúsíkklúbburinn var lengi á hrakhólum með húsnæði. Tónleikar fóru fram á ellefu stöðum, í skólum, kirkjum og félagsheimilum. Árið 1986 var leitið til fyrirtækja og banka um styrki til kaupa á vönduðum flygli.Höfðingskapur þessara aðila reyndist slíkur að kaupin tókust. Halldór Haraldsson skólastjóri Tónlistarháskólans og Runólfur Þórðarson stjórnarmaður í Kammermúsíklúbbnum völdu flygilinn í miðstöð Yamaha í Gautaborg. Hann var vígður í Bústaðakirkju í Reykjavík 1. desember 1986 og fögnum við því 20 ára afmæli hans í ár. Síðan hefur Kammermúsíkklúbburinn átt fast aðsetur í því fagra húsi og notið góðs sambýlis við húsbændur.
 
Starfsemi Kammermúsíkklúbbsins er nú með miklum blóma og  tónleikar vel sóttir. Ber fyrst og fremst að þakka það tvennu. Annars vegar er það tryggð félaga, en nokkrir hafa verið með frá stofnun hans. Jafnframt er það að þakka frábæru tónlistarfólki okkar, en fullyrða má að óvíða erlendis megi ganga að þeim gæðaflokki vísum sem jafnan er í boði á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins. Hins vegar myndi starfsemin vera öruggari með fleiri skráðum félögum.
 
Félagar í Kammermúsíkklúbbnum eru einbeittur hópur. Erlendir sem innlendir tónlistarmenn hafa látið orð falla um það að óvíða sé hin nána, hljóða og einlæga þátttaka hlustandans jafnvirk og á tónleikum klúbbsins.
 
Kammermúsíkklúbburinn hefur löngum notið fjárhagsstuðnings frá Reykjavíkurborg og Menntamálaráðuneytinu og nýtur nú jafnframt styrkja frá Icelandair og Landsbankanum.
Forsvarsmenn Kammermúsíkklúbbsins eru nú: Einar B. Pálsson, Guðmundur W. Vilhjálmsson, Helgi Hafliðason,  Runólfur Þórðarson, Sigurður Steinþórsson, Valdemar Pálsson og Halldór Hauksson
 
Á fertugasta starfsárinu, veturinn 1996-1997, stóð Kammermúsíkklúbburinn fyrir röð sex tónleika. Fimm þeirra voru hljóðritaðir af Halldóri Víkingssyni og er úrval þeirra hljóðritana að finna á hljómdiski, Frá draumi til draums. Þeir eru heimild um starfsemi klúbbsins á þessum tímamótum og dýrmætur vitnisburður um frábæran flutning tónlistarmanna okkar á sviði kammertónlistar. Einnig hefur verið gefinn út hljómdiskur með mögnuðum flutningi Einars Jóhannessonar, Sigrúnar Eðvaldsdóttur, Richards Talkowsky  og Folkes Gräsbeck á verki Messiaens, Kvartett um endalok tímans ásamt Tríói nr.1 fyrir fiðlu, selló og píanó eftir D. Shostakovich.
Hægt er að hlusta á sýnishorn af þessum diskum hér á vefnum.
 
Guðmundur W. Vilhjálmsson