Kammermúsíkklúbburinn 60 ára
 

Kammermúsíkklúbburinn hóf göngu sína 7. febrúar 1957 með tónleikum í samkomusal Melaskólans. Þar flutti Tríó Tónlistarskólans í Reykjavík (Árni Kristjánsson, Björn Ólafsson og Einar Vigfússon) Erkihertogatríó Beethovens op. 97 og (ásamt Jóni Sen og Ervin Köppen) Silungskvintett Schuberts D. 667.

Á 20 ára afmælistónleikum 29. mars 1977, sem helgaðir voru 150. ártíð Beethovens, flutti Märkl-kvartettinn frá München strengjakvartett Beethovens op. 135 og, ásamt Sigurði Snorrasyni, klarinettukvintett Max Reger op. 146. Síðan flutti Reykjavík Ensemble (Guðný Guðmundsdóttir,  Ásdís Þ. Stross, Mark Reedman og Nina G. Flyer) strengjakvartett Haydns op. 77,1 og loks allir strengir strengjaoktett Mendelssohns op. 20.

Á 25 ára afmæli klúbbsins hélt Sinnhoffer-kvartettinn frá Þýskalandi tvenna tónleika, 7. og 9. mars 1982, og flutti verk eftir stórmeistara strengjakvartettsins, Beethoven (op. 59,3), Brahms (op. 51,1), Schubert (Dauðinn og stúlkan), Haydn (op. 76,5) og Sjostakovítsj (op. 73).

Hinn 1. desember 1986 var vígður í Bústaðakirkju nýr flygill sem klúbburinn hafði keypt með stuðningi ýmissa fyrirtækja. Í því fagra húsi fékk klúbburinn líka í fyrsta sinn fastan samastað, en fram til þess tíma hafði hann verið á hrakhólum með húsnæði og tónleikar hans farið fram á ellefu stöðum, í skólum, kirkjum og félagsheimilum. Þaðan í frá hafði hann fastan samastað í Bústaðakirkju allt til febrúar 2012 þegar hann flutti í tónlistarhúsið Hörpu, sem vígt hafði verið ári fyrr.

Á 30 ára afmælinu 1987 kom Sinnhoffer enn til hjálpar, nú sem strengjakvintett, og flutti á tvennum tónleikum, 17. og 21. apríl, víólukvintetta eftir m.a. Mozart (K.515), Brahms (op. 88), Bruckner og Beethoven (op. 29).

Á árunum 1976-1993 heimsóttu þýskir kvartettar klúbbinn reglulega, Märkl-kvartettinn lék átta sinnum,  Sinnhoffer-kvartettinn 14 sinnum og samnefndur kvintett tvisvar sinnum. Þá spilaði „arftaki“ Sinnhoffers, Cuvilliés-kvartettinn, fjórum sinnum á árunum 1999 til 2006. En á 40 ára afmælinu 23. febrúar 1997 urðu þau stórmerki að Bernadel-kvartettinn (Zbigniew Dubik,  Greta Guðnadóttir, Guðmundur Kristmundsson, Guðrún T. Sigurðardóttir) flutti einn af hinum miklu síðustu strengjakvartettum Beethovens (op. 130) að ósk Kammermúsíkklúbbsins. Beethoven hafði sjálfur sagt að komandi kynslóðir myndu kunna að meta þessa kvartetta. Af  því tilefni skrifaði Guðmundur W. Vilhjálmsson, formaður og einn stofnenda klúbbsins: „Það var því vissulega tímabært að þeir yrðu fluttir af íslenskum tónlistarmönnum. Með því urðu Íslendingar sjálfstæð tónlistarþjóð! Síðan eru engin kammertónverk íslenskum tónlistarmönnum ofviða.“ Auk Beethovens flutti Bernadel-kvartettinn Haydn (op. 77,1) og frumsaminn kvartett Jóns Nordal, Frá draumi til draums. Á fertugasta starfsárinu, veturinn 1996-1997, stóð Kammermúsíkklúbburinn fyrir röð sex tónleika. Fimm þeirra voru hljóðritaðir af Halldóri Víkingssyni og er úrval þeirra hljóðritana að finna á hljómdiski, Frá draumi til draums.

Á  hálfrar aldar afmælistónleikum klúbbsins í febrúar 2007 var frumfluttur píanókvintett sem Þorkell Sigurbjörnsson hafði samið að því tilefni, og kvartett Beethovens í cis-moll op. 131. Það var í 7. sinn sem sá kvartett var fluttur í klúbbnum, fyrst af Sinnhoffer-kvartettnum þýska á 20 ára afmælinu 1977. Flytjendur á 50 ára afmælinu voru Sigrún Eðvaldsdóttir, Zbigniew Dubik, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir.

Nú, þegar Kammermmúsíkklúbburinn stendur á sextugu, hefur margt breyst í tónlistarlífi Íslendinga frá febrúar 1957. Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur vikulega tónleika í Hörpu, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands spilar í Hofi á Akureyri og víðar, og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna skemmtir sér og öðrum í Seltjarnarneskirkju. Og í kammermúsíkinni, sem fyrir 1957 átti sér aungvan vin, og síðan löngum fáa annan en Kammermúsíklúbbinn, vaxa nú mörg blóm og margvísleg, vikulegir tónleikar í Hörpu, tónleikaraðir í Salnum og víðar, og einstakir tónleikar út um allt. Því kunnáttu Íslendinga í hljóðfæraleik hefur stórfarið fram jafnt í fjölda spilara sem ágæti og, eins og Guðmundur W. Vilhjálmsson skrifaði í tilefni þess að íslenskur kvartett flutti Beethoven op. 130 árið 1997: Héðan í frá „eru engin kammertónverk íslenskum tónlistarmönnum ofviða.“ Og sem betur fer eru nógir til að hlusta líka — fyrir utan alla aðra eru um 200 félagar í Kammermúsíkklúbbnum.

Á sextíu ára afmæli sínu býður Kammermúsíkklúbburinn upp á tvenna tónleika þar sem Ásdís Valdimarsdóttir og þýski Auryn-kvartettinn flytja alla strengjakvintetta Mozarts. Það er venslum Ásdísar við kvartettinn að þakka að af þessum tónleikum getur orðið.

                                                                           Sig.St.